Erlent

Heimilar bana­til­ræði í Venesúela og í­hugar inn­rás

Eiður Þór Árnason skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lengi eldað grátt silfur með Nicolas Maduro.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lengi eldað grátt silfur með Nicolas Maduro. EPA

Ríkisstjórn Donald Trumps Bandaríkjaforseta hefur heimilað leyniþjónustu landsins (CIA) að framkvæma leynilegar aðgerðir í Venesúela. Heimildin er næsta skref í herferð Bandaríkjastjórnar gegn Venesúela og Nicolás Maduro, forseta landsins.

Bandaríski herinn hefur síðustu vikur beint sjónum sínum að bátum undan strönd Venesúela sem sagðir eru flytja fíkniefni og drepið þar 27 manns. The New York Times (NYT) segir að bandarískir embættismenn hafi fullyrt fullum fetum bak við tjöldin að lokamarkmið Bandaríkjastjórnar sé að hrekja Maduro frá völdum.

Trump greindi frá því í dag að hann hefði heimilað leynilegar aðgerðir í Venesúela og sagði stjórnvöld íhuga árásir á landsvæði Venesúela.

„Við erum klárlega að horfa á land núna, því við höfum mjög góða stjórn á hafinu,“ sagði forsetinn við blaðamenn nokkrum klukkustundum eftir að NYT greindi frá því að hann hafi veitt CIA leynilegu heimildina.

Árás á landsvæði Venesúela myndi fela í sér umtalsverða stigmögnun í herferð Bandaríkjanna gegn yfirvöldum þar í landi. Nýja heimildin er sögð leyfa CIA að hrinda í framkvæmd banatilræðum í Venesúela og ýmsum aðgerðum í Karíbahafinu.

Leyniþjónustan geti gripið til leynilegra aðgerða gegn Maduro eða ríkisstjórn hans, ýmist einhliða eða í tengslum við stærri hernaðaraðgerð. Það liggur ekki fyrir hvort CIA skipuleggi nú sérstakar aðgerðir í Venesúela.

Á sama tíma er bandaríski herinn sagður vinna að áætlun um frekari stigmögnun hernaðaraðgerða og leggja tillögur fram fyrir Trump. Þar sé meðal annars til skoðunar að gera árásir innan Venesúela.

Bandaríski herinn er með umtalsverðan mannafla á svæðinu nú þegar en þar eru nú tíu þúsund hermenn, flestir í herstöðvum í Púertó Ríkó. Þá er sjóherinn með sveitir á land- og vatnsárásarskipum, eða alls átta skip og einn kafbát í Karíbahafinu.

Trump batt enda á formleg diplómatísk samskipti við stjórn Maduro fyrr í þessum mánuði. Greip hann til þess ráðs eftir að hann varð pirraður yfir því að leiðtoginn hafi ekki fallist á kröfur Bankaríkjanna um að stígi sjálfviljugur til hliðar. Þá hefur Trump einnig gefið lítið fyrir yfirlýsingar embættismanna í Venesúela um að þeir hafi ekki átt neinn þátt í fíkniefnasmygli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×