Umræðan

Inn­herja­upp­lýsingar og birting á niður­stöðu Hæsta­réttar í vaxta­málinu

Andri Fannar Bergþórsson skrifar

Líkt og margir Íslendingar sat ég við límdur við tölvuskjáinn í gær að bíða eftir niðurstöðu í vaxtamálinu svokallaða, þar sem reyndi á hvort ógilda ætti skilmála um breytilega vexti óverðtryggðs húsnæðisláns í veðskuldabréfi. Mikið var undir í niðurstöðunni, enda gat hún haft áhrif á alla lántakendur sem höfðu tekið húsnæðislán með breytilegum vöxtum og bankana sem höfðu veitt þessi lán – tugir milljarða voru undir.

Innherjaupplýsingar í dómsniðurstöðunni

Ætlunin hér er ekki að fara nánar í niðurstöðu Hæstaréttar og hvaða þýðingu hún hefur fyrir aðra lántakendur með breytilega vexti, heldur velta uppi fyrirkomulaginu við birtingu dóms sem getur haft marktæk áhrif á hlutabréf félaga sem eru skráð á markað hér á landi. Í vaxtamálinu er óhætt að fullyrða að áður en niðurstaða dómsins var kynnt opinberlega fól hún í sér innherjaupplýsingar sem vörðuðu m.a. tvö skráð félög – Íslandsbanka og Arion. Með einföldum hætti má segja að með innherjaupplýsingum sé átt við verðmótandi upplýsingar um skráða fjármálagerninga, t.d. eins og hlutabréf eða skuldabréf sem eru skráð í Kauphöllinni, sem hafa ekki verið gerðar opinberar.

Lögin sem fjalla um meðferð innherjaupplýsinga og upplýsingaskyldu skráðra félaga taka eðlilega ekkert á því hvernig opinber birting dómsúrlausna skuli fara fram.

Þegar innherjaupplýsingar myndast hjá skráða félaginu sjálfu, t.d. þegar óbirt uppgjör sýnir fram á óvæntan hagnað eða tap, þarf félagið sjálft að passa upp á að slíkar upplýsingar séu birtar eins fljótt og auðið er á öllu Evrópska efnahagssvæðinu til að passa upp á að allir fái aðgang að upplýsingunum á sama tíma. Málin flækjast aðeins þegar innherjaupplýsingar myndast ekki hjá skráðu félögunum sjálfum heldur hjá öðrum aðilum, eins og dómstólum. Lögin sem fjalla um meðferð innherjaupplýsinga og upplýsingaskyldu skráðra félaga taka eðlilega ekkert á því hvernig opinber birting dómsúrlausna skuli fara fram. Birting dómsúrlausna Hæstaréttar og dómstóla á öðrum stigum fara eftir reglum um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðum dómstólanna.

Fyrirkomulag á birtingu dómsins – viðbrögð markaðarins

Fyrirkomulagið varðandi dómsuppkvaðningu í vaxtamálinu var þannig háttað að dómurinn var kveðinn upp í dómsal kl. 13:30 og gátu allir sem vildu verið viðstaddir þegar hann var kynntur. Þarna var dómsniðurstaðan kynnt sem sagði kannski ekki alla söguna, þar sem hún tiltók aðeins niðurstöðuna án þess að fara nánar í forsendurnar. Það var ekki fyrr en klukkustund síðar, kl. 14:30, sem dómurinn sjálfur var aðgengilegur á vef Hæstaréttar. Fram að því höfðu aðeins aðilar máls og lögmenn þeirra aðgang að heildardómnum. 

Í fréttum eftir dómsuppkvaðningu, en áður en dómurinn var birtur í heild sinni, voru því misvísandi upplýsingar í fjölmiðlum um niðurstöðuna og afleiðingar fyrir bankana. Fyrstu fyrirsagnirnar gáfu til kynna að Íslandsbanki hefði verið sýknaður af flestum kröfum lántakendanna en síðan fóru að birtast fréttir um yfirlýsingar formanns Neytendasamtakanna um fullnaðarsigur í málinu. Á sama tíma rauk hlutabréfaverð Íslandsbanka og Arion upp og niður á þessu tímabili. 

Það gæti dregið úr þeirri óvissu sem getur skapast á markaði meðal fjárfesta þegar einhver tími líður frá dómsuppkvaðningu í sal þar til dómurinn er birtur í heild sinni.

Eftir að dómurinn hafði verið birtur í heild sinni og hægt var að glöggva sig á niðurstöðunni og hugsanlegum afleiðingum var ljóst að niðurstaðan var töluvert betri fyrir bankana en svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. Samkvæmt fréttum var mesta veltan í Kauphöllinni með hlutabréf í Íslandsbanka eða um 1,4 milljarðar króna og hækkuðu bréfin um 3,7%. Gengið í Arion hækkaði einnig töluvert. Áhrif dómsins voru því töluverð á gengi hlutabréfa í Íslandsbanka og Arion.

Í ljósi reynslunnar af birtingu dóms í vaxtamálinu svokallaða í gær má velta fyrir sér hvort tilefni sé til að skoða að birta dóm í heild sinni á svipuðum tíma og dómurinn er kveðinn upp þegar það liggur fyrir að niðurstaðan geti falið í sér innherjaupplýsingar hjá skráðum félögum. Að mínu mati gæti það dregið úr þeirri óvissu sem getur skapast á markaði meðal fjárfesta þegar einhver tími líður frá dómsuppkvaðningu í sal þar til dómurinn er birtur í heild sinni.

Höfundur er prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og lögmaður.






×