Erlent

Hundrað prósenta tollaaukning á allar vörur frá Kína

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Trump var harðorður í tilkynningu sinni.
Trump var harðorður í tilkynningu sinni. AP

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í kvöld að hundrað prósent tollar yrðu lagðar á allar vörur frá Kína. Þessi hundrað prósent sagði hann bætast við þá tolla sem innflytjendur borga þegar fyrir kínverskar vörur. Tilkynningin markar enn aðra stigmögnunina í viðskiptastríði Bandaríkjanna og Kína.

Ráðamenn í Kína greindu frá því í gærmorgun að nýir og umfangsmeiri tálmar yrðu innleiddir á sölu svokallaðra sjaldgæfra málma og allra vara unninna úr þeim. Slíkir tálmar voru einnig settir á útflutning á liþíumrafhlöðum. Sjaldgæfir málmar og vörur unnar úr þeim eru ómissandi fyrir framleiðslu tækni á borð við heilbrigðistæki, rafbíla og smára sem eru undirstaða raftækni nútímans. 

„Fordæmalaust“ og „siðlaust“

Í færslu sem Trump birti á samfélagsmiðlum í kvöld sagði hann ákvörðun kínverskra stjórnvalda fordæmalausa og til marks um siðrof í viðskiptum þjóða. Hann sagði Kínverja í raun setja viðskiptatálma á allar vörur sem þar eru framleiddar og meira til.

„Þetta hefur áhrif á allar þjóðir, án undantekningar, og var augljóslega skref sem þeir hafa haft í pípunum í mörg ár. Það er algjörlega fordæmalaust í alþjóðaviðskiptum og siðlaust,“ sagði Trump í færslu sinni.

Viðskiptatálmar Kínverja á sjaldgæfa málma munu allir hafa tekið gildi fyrsta nóvember næstkomandi og því segir Trump að sín hundrað prósenta álagning á tollum á vörur frá Kína taki einnig gildi þá. Bandaríkin muni samhliða því innliða viðskiptatálma á mikilvægan hugbúnað.

Markaðsstaða Kínverja sterk

Um sjötíu prósent allra sjaldgæfra málma sem sóttir eru í jörðina eru sóttir í Kína og hátt í níutíu prósent vinnslu á sjaldgæfum málmum fer fram þar í landi. Af því er ljóst að markaðsstaða Kínverja þegar kemur að þessum bráðnauðsynlega þætti nútímalifnaðar er ansi sterk. Vert er að geta þess að þessir tálmar Kínverja eru nauðalíkir svipuðum tálmum Bandaríkjanna er varða útflutning á háþróuðum tölvuflögum til Kína.

Donald Trump og Xi Jinping forseti Kína áttu fund eftir rúmar tvær vikur þar sem þeir munu báðir sækja fund Efnahagssamvinnu Asíu- og Kyrrahafsríkja í Suður-Kóreu. Ekki er ljóst hvort af honum verði í ljósi aukinnar hörku í samskiptum forsetanna á milli.


Tengdar fréttir

Viðvörunarbjöllur glymja vegna Kína og sjaldgæfra málma

Forsvarsmenn bílaframleiðenda og annarra fyrirtækja víðsvegar um heiminn vara við því að bílaframleiðsla gæti stöðvast vegna skorts á sérstökum seglum, sem eru nánast eingöngu framleiddir í Kína. Verksmiðjum gæti verið lokað víða um heim á næstu vikum felli Kínverjar ekki niður tálma á útflutningi þessara segla og sjaldgæfra málma sem notaðir eru við framleiðslu þeirra.

Trump segir sjaldgæfa málma og segla aftur á leið til Bandaríkjanna

Ráðamenn í Bandaríkjunum og Kína hafa, samkvæmt Donald Trump forseta Bandaríkjanna, gert nýtt samkomulag varðandi viðskipti ríkjanna, vegabréfsáritanir og þá sérstaklega sjaldgæfa málma og segla úr þeim. Viðræður milli ríkjanna hafa átt sér stað í Lundúnum undanfarna daga en deilurnar milli ríkjanna snúa að mestu leyti að tollum og svokölluðum sjaldgæfum málmum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×