Körfubolti

Aug­lýsir ólög­leg veð­mál: „Hryggir mig mjög að Kristó­fer fari þessa leið“

Sindri Sverrisson skrifar
Kristófer Acox var á auglýsingu fyrir erlenda veðmálasíðu fyrir leiki í íslenskum körfubolta í gær, þar á meðal leik síns gamla liðs KR gegn Ármanni.
Kristófer Acox var á auglýsingu fyrir erlenda veðmálasíðu fyrir leiki í íslenskum körfubolta í gær, þar á meðal leik síns gamla liðs KR gegn Ármanni. Samsett/Vísir/X

Körfuboltamaðurinn Kristófer Acox gæti átt yfir höfði sér sekt frá Körfuknattleikssambandi Íslands fyrir að auglýsa erlenda veðmálasíðu. Kristófer var andlit auglýsingar um veðmál á leiki í deildinni sem hann spilar sjálfur í; Bónus-deildinni.

„Það hryggir mig mjög að Kristófer fari þessa leið til að þéna peninga,“ segir Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ.

„Að sama skapi þá er pínulítið gleðiefni hvað ég hef fengið ofboðslega mikil viðbrögð við þessu frá fólki í íþróttahreyfingunni, þar sem fólk lýsir yfir undrun sinni á að þarna sé komin leið fyrir ólöglega veðmálasíðu til að auglýsa sig. Ég er sammála því. Við vitum öll hvernig lög og reglur eru á Íslandi og það er pínulítið sorglegt að sjá leikmann eins og Kristófer Acox auglýsa síðu sem er ekki með löglega starfsemi á Íslandi,“ segir Hannes.

Í auglýsingu veðmálafyrirtækisins sem Kristófer hefur nú ákveðið að starfa fyrir, sem birtist í gær, mátti sjá hugmynd að þriggja leikja veðmáli fyrir leiki gærkvöldsins í íslenska körfuboltanum. Þar var stungið upp á því að veðja á meira en 20 stiga sigur KR gegn Ármanni, sigur Álftaness gegn Þór Þorlákshöfn og sigur Hattar gegn Skallagrími í 1. deild karla.

Kristófer, sem spilar annað kvöld með Val gegn Stjörnunni í Bónus-deildinni, fetar með þessu í fótspor ýmissa nafntogaðra einstaklinga á Íslandi sem auglýsa erlendar veðmálasíður með ýmsum hætti. 

Slíkt hefur tíðkast svo lengi að ljóst má vera að íslensk yfirvöld hafa ekki forsendur til að aðhafast nokkuð, án þess þó að stjórnvöld hafi svo farið í hina áttina og gert erlendar veðmálasíður löglegar með tilheyrandi tekjumöguleikum. Kristófer gæti hins vegar átt von á refsingu frá KKÍ.

„Þetta sýnir svo svart á hvítu að það þarf að bregðast hratt við. Það þarf að breyta löggjöfinni á Íslandi og annað hvort gera þetta löglegt eða ekki. Það er umræðan sem við þurfum að taka og hefur verið í þjóðfélaginu undanfarið, meðal annars inni á Alþingi,“ segir Hannes sem er einnig varaþingmaður Samfylkingarinnar.

Aðspurður hvort Kristófer megi eiga von á einhverri refsingu frá KKÍ, til að mynda 400.000 króna sekt eins og heimild er fyrir í reglum vegna „atvika sem skaðað geta ímynd körfuknattleiks“, segir Hannes:

„Ég þarf að setjast niður og skoða það á næstu dögum en ég geri ráð fyrir að hann sé búinn að tryggja sig í bak og fyrir varðandi einhverja sekt, gagnvart þessu veðmálafyrirtæki. Fyrir veðmálafyrirtæki sem er með ólöglega starfsemi á Íslandi er 400.000 króna sekt ekki mikið. Það væri forvitnilegt að vita hvernig hann fær tekjur frá þessu fyrirtæki og ég hef trú á að þar til bær yfirvöld skoði hvernig hann fær þær,“ segir Hannes.

„Af hverju leyfum við þetta þá ekki?“

Hannes vill hins vegar taka skýrt fram að beina eigi sjónum að erlendu veðmálasíðunum frekar en Kristófer.

„Við skulum hafa það á hreinu að Kristófer Acox er góður drengur og mér finnst frekar að það ætti að refsa þessu erlenda veðmálafyrirtæki fyrir að nota einstakling eins og hann í auglýsingaherferð. Kristófer er bara góður drengur sem eins og við öll myndi gera ýmislegt til að fá góða greiðslu og mér finnst ekki við hann að sakast í þessu.

Íslensk yfirvöld ættu frekar að beina sjónum sínum að þessu fyrirtæki, ef að það er hægt. Ef að það er ekki hægt að taka á þessum ólöglegu veðmálasíðum, af hverju leyfum við þetta þá ekki og tökum skatt af þessum fyrirtækjum? Við eigum ekki að gera Kristófer að „vonda kallinum“ heldur skoða af hverju þessi ólöglegu fyrirtæki fá að auglýsa svona á Íslandi,“ segir Hannes.

Ekki náðist í Kristófer við vinnslu greinarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×