Körfubolti

Að­dá­endur pirraðir eftir „á­kvörðun“ LeBron James

Sindri Sverrisson skrifar
LeBron James virtist hafa gaman af að hrekkja körfuboltaunnendur.
LeBron James virtist hafa gaman af að hrekkja körfuboltaunnendur. GEtty/Ronald Martinez

„Ákvörðun allra ákvarðana“ sem körfuboltagoðsögnin LeBron James sagði að væri í pípunum reyndist síður en svo eins spennandi eða fréttnæm og hann hafði gefið til kynna. Aðeins var um auglýsingu að ræða.

LeBron birti myndband á samfélagsmiðlum í gær þar sem hann sást ganga inn í íþróttasal og setjast gegnt öðrum manni. Í lok myndbandsins sagði að nú væri komið að „annarri ákvörðun“ og þannig vísað í stóru ákvörðunina frá árinu 2010, þegar LeBron tilkynnti í beinni útsendingu á ESPN að hann myndi ganga í raðir Miami Heat.

Aðdáendur og körfuboltaspekúlantar voru því á yfirsnúningi í dag við að velta fyrir sér hvaða stórtíðindi væru í vændum, og hvort LeBron myndi tilkynna að hann væri hættur að spila.

Það kom hins vegar í ljós að aðeins var um að ræða auglýsingu um samstarf þessa stigahæsta leikmanns í sögu NBA-deildarinnar við viskíframleiðandann Hennessy.

Óhætt er að segja að þessi niðurstaða hafi vakið misjöfn viðbrögð og lýstu netverjar margir yfir óánægju með að LeBron skyldi blekkja þá svona. Það verður svo að koma í ljós síðar hvenær þessi fertugi, fjórfaldi NBA-meistari leggur skóna á hilluna.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×