Innlent

Ó­á­nægja með stjórnar­and­stöðu í hæstu hæðum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stjórnarandstöðuþingmennirnir nítján stilltu saman strengi í Smiðju í febrúar og fór vel á með þeim. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins birti myndina á samfélagsmiðlum en hann sést hér til hægri gægjast á bak við vegg.
Stjórnarandstöðuþingmennirnir nítján stilltu saman strengi í Smiðju í febrúar og fór vel á með þeim. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins birti myndina á samfélagsmiðlum en hann sést hér til hægri gægjast á bak við vegg. Sigmundur Davíð

Ánægja með störf ríkisstjórnarinnar eykst á milli fjórðunga og hefur ekki verið meiri í á fimmta ár. Á sama tíma eykst óánægjan nokkuð. Óánægja með störf stjórnarandstöðunnar er í hæstu hæðum.

Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu fyrir júlí til september. Mestu breytinguna á milli ársfjórðunga má merkja í óánægju með stjórnarandstöðuna sem ekki hefur mælst meiri í lengri tíma.

Alls eru 62 prósent landsmanna ósátt við störf flokkanna þriggja í stjórnarandstöðu, þ.e. Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Framsóknarflokksins. Í síðustu könnun voru 47 prósent óánægð með stjórnarandstöðuna.

Alls segjast rúmlega 48 prósent manns ánægð með störf ríkisstjórnarinnar sem er tæplega tveggja prósenta aukning frá síðasta fjórðungi og um átta prósenta aukning frá fyrsta fjórðungi, þegar ríkisstjórn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins var nýtekin til starfa.

Níu af hverjum tíu Samfylkingarmönnum eru ánægðir með ríkisstjórnina, 75 prósent Viðreisnarfólks og 71 prósent kjósenda Flokks fólksins. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru óánægðastir með ríkisstjórnina eða sjö af hverjum tíu og hlutfallið er litlu minna hjá kjósendum Miðflokksins. Helmingur Framsóknarmanna er óánægður með ríkisstjórnina.

Kjósendur Vinstri grænna, Sósíalistaflokksins og Pírata eru töluvert ánægðari en óánægðari með ríkisstjórnina. Enginn flokkanna náði kjöri á Alþingi í kosningunum í nóvember.

Sé litið til aldurs eykst ánægjan með ríkisstjórnina með hækkandi aldri og er hún meiri á suðvesturhorninu en á landsbyggðinni. Þá eykst ánægjan með auknu menntastigi en til þess að gera er lítill munur á milli tekjuflokka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×