Fótbolti

Laumað út af leik­vanginum í lög­reglu­fylgd og svo rekinn seinna um kvöldið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Martin fékk bara að stýra Rangers í 123 daga því hann var rekinn í gær.
Russell Martin fékk bara að stýra Rangers í 123 daga því hann var rekinn í gær. EPA/GEORGIA PANAGOPOULOU

Russell Martin stýrði í gær sínum síðasta leik sem knattspyrnustjóri skoska stórliðsins Rangers en hann þurfti að taka pokann sinn í gærkvöldi eftir aðeins 123 daga í starfinu.

Rangers gerði 1-1 jafntefli við Falkirk í lokaleik hans í gær og var því aðeins búið að vinna fimm af fyrstu sautján leikjum sínum undir hans stjórn.

Liðið situr í áttunda sæti skosku úrvalsdeildarinnar og það er óhætt að segja að stuðningsmennirnir hafi verið öskureiðir enda uppskeran aðeins einn sigur í sjö deildarleikjum og mörkin bara sex í þessum sjö leikjum.

Mótherjinn í gær var aðeins með fimm stig fyrir leikinn og sat enn neðar í töflunni. Það dugaði ekki og liðið bjargaði á endanum stiginu.

Stuðningsmennirnir höfðu sungið söngva um stjórann sinn síðan liðið lenti undir í leiknum og þessir söngvar voru ekki fallegir.

Eftir leikinn þá reyndu þeir að koma í veg fyrir að liðsrútan kæmist í burtu með því að setjast í kringum hana. Lögreglan sá til þess að leikmannarútan gat farið sína leið. ESPN segir frá.

Martin fór hins vegar út af vellinum í gegnum bakdyr og í lögreglufylgd. Hann fór því ekki með liðsrútunni. Áður hafði hann sagt að hann skildi vel hörð viðbrögð stuðningsmannanna.

Ekki löngu síðast bárust fréttir af því að Rangers hafði rekið þennan 39 ára gamla stjóra sinn. Þetta er í annað skiptið á innan við ári þar sem hann er rekinn því Southampton lét hann fara í desember í fyrra eftir aðeins einn sigur í fyrstu sextán leikjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×