Viðskipti innlent

Hætti korteri eftir peppfund með Möltufólkinu

Árni Sæberg skrifar
Halldór Guðfinnsson (til vinstri) ásamt Andra Geir Eyjólfssyni og Friðriki Ottesen í flugstjórnarklefa Play þegar þeir tóku við fyrstu flugvél Play árið 2021.
Halldór Guðfinnsson (til vinstri) ásamt Andra Geir Eyjólfssyni og Friðriki Ottesen í flugstjórnarklefa Play þegar þeir tóku við fyrstu flugvél Play árið 2021. Play

Halldór Guðfinnsson, flugrekstrarstjóri Play og maltneska dótturfélagsins, fékk uppsagnarbréf hvað íslenska félagið varðar afhent fimmtán mínútum eftir starfsmannafund maltneska félagsins og sagði í kjölfarið upp störfum á Möltu. Á fundinum sagði hann að hann væri einn tveggja starfsmanna félagsins á Íslandi sem héldi vinnunni og hann væri viss um að starfsemin á Möltu væri fjármögnuð.

Halldór staðfestir í samtali við Vísi að honum hafi verið sagt upp störfum í gær og í kjölfarið tilkynnt félaginu á Möltu og yfirvöldum þar að hann væri hættur. Mbl.is greindi fyrst frá og hafði eftir heimildum sínum að hann hefði látið af störfum.

Vísir greindi frá því í gær að tilkynnt hefði verið á starfsmannafundi Fly Play Europe fyrr um daginn að stefnt væri að því að hefja rekstur á ný innan tíu vikna.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu voru starfsmenn maltneska félagsins upplýstir um það á starfsmannafundi í gær að unnið væri að því að færa átta þotur yfir til félagsins og tryggja þeim maltneskt flugrekstrarleyfi. Framundan væri gríðarleg pappírsvinna og stefnt væri að því að hefja rekstur aftur sem allra fyrst.

Fimm dagar urðu tíu vikur

Á fundinum sagði Carmen Cuschieri, yfirmaður flugþjóna hjá Fly Play Europe, að rekstur gæti hafist á nýjan leik á næstu fimm dögum. Í tölvupósti sem sendur var til starfsmanna Fly Play Europe seinna í gær kom svo fram að málið væri töluvert flóknara, og það gæti tekið nokkrar vikur að hefja starfsemi aftur.

Í besta falli gæti það verið eftir fjórar til fimm vikur, en öruggast væri að giska á að ferlið gæti tekið um sex til tíu vikur.

Fundurinn til þess að peppa starfsfólk

„Margir vinir mínir á Íslandi voru að missa vinnuna sína, en ekki ég. Ég er einn af held ég tveimur sem eru enn þá með vinnu. Ég væri ekki núna að vinna fyrir Fly Play Europe, ef ég væri ekki viss um að það væri búið að tryggja fjármögnun fyrir verkefnið,“ sagði Halldór við starfsfólk á fundinum.

Nú segir hann í samtali við Vísi að honum hafi verið sagt upp störfum í gær og sé því hvorki flugrekstrarstjóri samkvæmt íslenska flugrekstrarleyfinu, sem sé ekki til lengur, né því maltneska eftir að hafa sagt upp störfum þar á bæ.

„Þetta var einfaldlega starfsmannafundur til þess að peppa fólkið upp, þetta snerist bara um það, það var ekkert meira á bak við þetta en það. Ég er ekkert inni í peningahliðinni á þessu dóti, það er bara þannig, það er ekki hlutverk flugrekstrarstjóra.“

Fréttin hefur verið leiðrétt. Upphaflega var haft eftir Halldóri að honum hefði verið sagt upp sem flugrekstarstjóra bæði hjá Play á Íslandi og Möltu. Hið rétta er að honum var sagt upp störfum á Íslandi og sagði í kjölfarið upp hjá maltneska félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×