Innlent

Hættir sem þing­flokks­for­maður

Atli Ísleifsson skrifar
Bergþór Ólason segir að þrýst hafi verið á hann að bjóða sig fram til embættis varaformanns Miðflokksins á komandi landsþingi.
Bergþór Ólason segir að þrýst hafi verið á hann að bjóða sig fram til embættis varaformanns Miðflokksins á komandi landsþingi. Vísir/Einar

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, hyggst hætta sem þingflokksformaður Miðflokksins.

Bergþór staðfestir þetta í samtali við fréttastofu en mbl.is greindi fyrst frá málinu.

Hann segir að þetta sé nokkuð sem hann hafi velt fyrir sér síðustu misserin og að hann hafi tilkynnt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni flokksins, um ákvörðun sína um helgina.

„Ég vil beina orkunni í aðrar áttir og það er ekkert leyndarmál að ég hef ekki geta sinnt kjördæmi mínu eins og ég hefði viljað vegna verkefna sem tengjast þingflokksformennskunni,“ segir Bergþór.

Boðað hefur verið til þingflokksfundar á morgun og á Bergþór von á að Sigmundur Davíð muni þar koma með tillögu um nýjan þingflokksformann.

Landsþing Miðflokksins fer fram helgina 11. og 12. október og stendur þar til að kjósa varaformann flokksins. Aðspurður um hvort Bergþór ætli að bjóða sig fram í það embætti segist hann ekki hafa tekið ákvörðun um það. „En ákvörðunin nú tengist því ekki. Vissulega hefur þó verið ýtt við mér líkt og vafalaust hafi verið ýtt við öðrum í þingflokknum,“ segir Bergþór.

Bergþór hefur gegnt stöðu formanns þingflokksins frá árinu 2021.


Tengdar fréttir

Skora á Snorra að gefa kost á sér

Stjórn Miðflokksins í Hafnarfirði skorar á Snorra Másson að gefa kost á sér í embætti varaformanns Miðflokksins á komandi landsþingi. Um þetta ályktaði stjórnin í dag en landsþing flokksins fer fram 10. til 12. október næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×