Erlent

Segir Pútín hafa valdið sér „miklum von­brigðum“

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Leon Neal

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að Vladimír Pútín, kollegi hans í Rússlandi, hafi valdið sér miklum vonbrigðum síðan Trump varð aftur forseti. Það væri vegna þess hve erfitt hefði verið að fá Pútín til að láta af árásum sínum á Úkraínu og semja um frið.

Áður hafði Trump staðið í þeirri trú að gott persónulegt samband hans og Pútíns myndi gera honum auðvelt að koma á friði í Úkraínu. Svo hafi þó ekki verið raunin.

„Hann olli mér vonbrigðum. Hann olli mér miklum vonbrigðum.“

Þetta sagði Trump á blaðamannafundi með Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, í dag.

Seinna á fundinum, í svari við spurningu blaðamanns, sagði Trump að Pútín væri að drepa mikið af fólki en hann væri að missa mun fleiri en hann væri að drepa. Rússar væru að missa fleiri hermenn en Úkraínumenn.

Þá hélt Trump því fram að átökin í Úkraínu hefðu ekki áhrif á Bandaríkin, nema þau yrðu að heimsstyrjöld, og sagði að innrás Rússa hefði aldrei átt sér stað ef hann hefði verið forseti. Það er eitthvað sem hann hefur ítrekað sagt áður og gaf til kynna að innrásin væri á ábyrgð Joes Biden, forvera síns. Það hefur hann einnig ítrekað sagt áður.

Þá sagði Trump að hann hefði „leyst“ sjö styrjaldir í heiminum, síðan hann varð forseti. Mörg þeirra hefði nánast verið ómögulegt að leysa. Deila má um hversu rétt Trump fyrir sér.

Sjá einnig: „Stríðin“ sex, stundum sjö, sem Trump segist hafa stöðvað

Það var í kjölfarið sem Trump sagðist hafa verið viss um að gott samband hans og Pútíns myndi duga til að koma á friði og að Pútín hefði valdið honum vonbrigðum.

„Við sjáum hvernig það fer,“ sagði Trump.

Trump sagði svo að stríð væru óútreiknanleg.

„Hlutir gerast sem eru mjög andstæðir því sem þú hélst að myndi gerast. Þú hélst að þetta yrði auðvelt, eða erfitt, og niðurstaðan verður öfug.“

Sagði aukin þrýsting nauðsynlegan

Starmer ávarpaði einnig blaðamenn á fundinum en hann sagði að Pútín hefði að undanförnu sýnt sitt raunverulega andlit. Hann benti á að Rússar hefðu sett meira púður í árásir sínar í Úkraínu, bæði á jörðu niðri og á lofti, og sagði það ekki benda til þess að Pútín hefði mikinn áhuga á friði.

Forsætisráðherrann sagði nauðsynlegt að auka þrýstinginn á Pútín. Hann hefði einungis sýnt minnsta samningsvilja þegar hann hafi fundið fyrir þrýstingi.

Starmer vísaði til sprengiárása á sendiráð og ræðismannsskrifstofur Bretlands og Evrópusambandsins í Kænugarði og sagði að þar til nú hefði verið talið að ekki yrði ráðist á þessar byggingar.

Einnig benti hann á drónaflugið inn í Pólland og sagði að annað hvort teldi Pútín engar hömlur á sér eða hann væri að sýna aukið skeytingarleysi.

„Þetta eru ekki aðgerðir einhvers sem vill frið,“ sagði Starmer. Hann sagðist hafa rætt við Trump um það hvernig hægt væri að auka þrýstinginn á Pútín.

Fjarlægur friður

Viðleitni Trumps til að koma á friði milli Rússa og Úkraínu hefur engan árangur borið enn sem komið er. Úkraínumenn, bakhjarlar þeirra í Evrópu og Trump, um tíma, vildu koma á tafar- og skilyrðislausu vopnahléi í Úkraínu og svo í kjölfarið friðarviðræður.

Það breyttist eftir fund Trumps og Pútíns í síðasta mánuði þegar Trump skipti um skoðun og sagði að í stað vopnahlés þyrfti að koma á almennum friði gegnum viðræður, eins og Pútín hefur talað um.

Þá hefur Trump, eins og Selenskí hefur einnig gert, ítrekað kallað eftir því að Pútín fundi með Selenskí og stríðið. Það hefur Pútín ekki viljað gera hingað til.

Trump hefur ítrekað talað um að hann gæti aukið þrýsting á Pútín með hertum refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum gegn olíusölu Rússlands. Þrátt fyrir að hafa nokkrum sinnum gefið Pútín frest til að hefja viðræður við Úkraínumenn, annars beiti hann refsiaðgerðum, hefur Trump ekki enn látið verða að því. Þess í stað gagnrýndi hann nýverið ríki Evrópu fyrir að kaupa enn olíu og gas af Rússlandi.

Þar er að mestu um að ræða Ungverjaland og Slóvakíu en Tyrkland, sem er í NATO, kaupir einnig mikið af olíu af Rússum.

Sala á olíu, olíuafurðum og jarðgasi er mikilvægasta tekjulind Rússlands. Pútín ítrekaði á blaðamannafundinum að ríki ættu að hætta að kaupa þessar vörur af Rússum. Einni þyrfti að halda áfram að lækka olíuverð. Ef verðið lækkaði áfram, myndi Pútín þurfa að hætta stríðsrekstri sínum.


Tengdar fréttir

Kalla rússneska sendiherrann á teppið

Rúmenar kölluðu rússneska sendiherrann á teppið eftir að rússnesk flygildi rufu rúmenska lofthelgi í gær og þar með Atlantshafsbandalagsins. Litið er á atvikið og svipað atvik í Póllandi fyrr í vikunni sem ögrun af hálfu Rússa.

Skipar NATO-ríkjum að hætta að kaupa olíu af Rússum

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist tilbúinn að ráðast í þungar refsiaðgerðir gegn Rússlandi ef öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hætta að kaupa olíu af Rússlandi. Tyrkland er eitt af stærstu kaupendum rússneskrar olíu. 

Óttast gremju uppgjafahermanna í Rússlandi

Ráðamenn í Rússlandi hafa sífellt meiri áhyggjur af því hvaða áhrif hundruð þúsunda uppgjafahermanna sem snúa aftur frá innrásinni í Úkraínu muni hafa í Rússlandi. Meðal þess sem þeir óttast er að uppgjafahermenn muni ýta undir glæpastarfsemi og óöld í Rússlandi og stendur til að reyna að koma mörgum þeirra í opinber störf.

Rándýrar herþotur og flugskeyti gegn ódýrum drónum

Úkraínumenn hafa um árabil varist svo gott sem daglegum árásum Rússa með sjálfsprengidróna og eldflaugar. Til þessa notast þeir marglaga varnir en þróun þessara varna hefur að miklu leyti gengið út á að draga eins og hægt er úr kostnaði við varnirnar en drónarnir eru tiltölulega ódýrir í framleiðslu og flugskeyti í loftvarnarkerfi og herþotur eru það alls ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×