Erlent

Opna tíma­bundna flótta­leið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Herinn segir aðgerðirnar mögulega munu standa yfir í nokkra mánuði.
Herinn segir aðgerðirnar mögulega munu standa yfir í nokkra mánuði. epa/Abir Sultan

Ísraelsher tilkynnti í morgun að opnað yrði tímabundið fyrir leið frá Gasa-borg til að gefa íbúum kost á því að flýja það ástand sem skapast hefur í borginni eftir innrás hersins.

Að sögn Avichay Adraee, talsmanni Ísraelshers, verður veginum Salah al-Din haldið opnum í 48 klukkustundir.

Skriðdrekar og sprengjuhlaðnar fjarstýrðar bifreiðar héldu inn á Gasa í gær, í aðgerðum sem herinn hefur sagt að gætu staðið yfir í marga mánuði. Það vekur athygli að forsætisráðherrann Benjamin Netanyahu saðgi í gær að markmið aðgerðanna væri að sigra óvinin og koma íbúum á brott. Hann minntist ekkert á frelsun þeirra 20 gísla sem enn eru taldir á lífi og í haldi Hamas.  

Aðstandendur gíslanna mótmæltu skammt frá aðsetri forsætisráðherrans í Jerúsalem í gær.

Stjórnvöld í Katar fordæmdu aðgerðirnar í yfirlýsingu sem send var út í morgun og sögðu um að ræða enn eitt skrefið í útrýmingarherferð Ísraels gegn Palestínumönnum. Ísraelsstjórn væri að grafa undan mögulegum friði á svæðinu og fyrirætlanir þeirra ógnuðu friði og öryggi á svæðinu og í heiminum öllum.

Kölluðu þau eftir samstöðu alþjóðasamfélagsins.

António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt aðgerðirnar harðlega en hann segir augljóst að stjórnvöld í Ísrael hafi engan áhuga á friði. 

Heilbrigðisyfirvöld á Gasa segja að minnsta kosti sextán hafa látist í nótt, þeirra á meðal helmingur í Gasa-borg. Þá létust þrír í Nuseirat-flóttamannabúðunum, þeirra á meðal þunguð kona.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun í dag kynna aðgerðir til að þrýsta á stjórnvöld í Ísrael að breyta um stefnu í málefnum Gasa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×