Fótbolti

Hlín fagnaði sætum sigri gegn Liverpool

Sindri Sverrisson skrifar
Hlín Eiríksdóttir og stöllur hennar fögnuðu vel í leikslok í dag.
Hlín Eiríksdóttir og stöllur hennar fögnuðu vel í leikslok í dag. Getty/Jan Kruger

Leicester, lið Hlínar Eiríksdóttur, vann 1-0 sigur gegn Liverpool í ensku ofurdeildinni í fótbolta í dag þrátt fyrir að missa mann af velli með rautt spjald snemma í seinni hálfleik.

Shannon O‘Brien fékk sitt seinna gula spjald og þar með rautt á 56. mínútu, þegar staðan var enn markalaus, en skömmu síðar komst Leicester engu að síður yfir. Það var ástralska landsliðskonan Emily van Egmond sem skoraði markið.

Hlín kom inn af varamannabekknum á 83. mínútu og hjálpaði til við að halda forskotinu til loka leiksins.

Leicester hafði tapað 4-0 fyrir Manchester United í fyrstu umferð og fékk því sín fyrstu stig í dag.

United vann 5-1 stórsigur gegn London City, líkt og Arsenal gerði á föstudag gegn West Ham í Lundúnaslag, og Chelsea vann 3-1 útisigur gegn Aston Villa. Everton og Tottenham, sem bæði unnu í fyrstu umferð, mætast í lokaleik dagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×