Körfubolti

Ís­lenskan er á­stæðan fyrir því að Baldur er meira á hliðar­línunni en Craig

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Baldur Þór Ragnarsson aðstoðarlandsliðsþjálfari er alltaf bjartsýnn.
Baldur Þór Ragnarsson aðstoðarlandsliðsþjálfari er alltaf bjartsýnn. vísir/hulda margrét

Baldur Þór Ragnarsson, aðstoðarþjálfari íslenska liðsins, vakti athygli í fyrsta leik Íslands á EM þar sem hann var meira á hliðarlínunni en aðalþjálfarinn, Craig Pedersen.

„Við erum búnir að vinna saman í langan tíma. Þetta eru orðin átta ár. Ég tala íslensku og það skilur enginn íslensku í hinu liðinu. Ég get því auðveldlega komið skilaboðum á íslensku inn á völlinn sem andstæðingurinn skilur ekki,“ sagði Baldur léttur.

„Hann treystir mér líka til að taka ákvarðanir. Við vinnum þetta saman eins og við höfum gert í langan tíma.“

Klippa: Baldur brattur fyrir leikinn gegn Belgíu

Er Vísir hitti á landsliðið í Katowice í gær voru menn búnir að sleikja sárin eftir leikinn gegn Ísrael og hausinn kominn á leikinn gegn Belgíu sem fer fram í dag.

„Belgarnir eru vel mannaðir. Þeir eru með þéttan rúllara sem getur gripið fyrir ofan körfuna. Fjarkastaðan er sterk hjá þeim. Það eru svo sterkir skotmenn líka. Þetta er bara gæðalið,“ segir Baldur en þetta er leikur sem Ísland ætlar sér að vinna.

„Við verðum að gera betur en síðast og gera meira af því góða. Ég leit líka á fyrsta leikinn sem risatækifæri til að vinna. Það er alltaf hægt að vinna. Við erum búnir að brjóta þetta dæmi aðeins. Höfum unnið stórar þjóðir á síðustu árum. Við förum inn í leikinn með það hugarfar að við getum unnið alla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×