Erlent

Skoða að endur­heimta vot­lendi til að stöðva lofts­lags­breytingar og Rússa

Kjartan Kjartansson skrifar
Eistneskar mómýrar gætu bæði gagnast til þess að verjast innrásarher úr austri og loftslagsbreytingum af völdum manna.
Eistneskar mómýrar gætu bæði gagnast til þess að verjast innrásarher úr austri og loftslagsbreytingum af völdum manna. Vísir/Getty

Yfirvöld í Eistlandi kanna nú möguleikann á að endurheimta framræstar mómýrar og slá með því tvær flugur í einu höggi. Annars vegar til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hins vegar til þess að efla varnir landsins gegn mögulegri innrás Rússa.

Eistland er ríkt af mólendi en stór hluti þess hefur verið ræstur fram í þágu landbúnaðar. Þegar mómýrarnar þorna byrjar mórinn að rotna og gefa frá sér mikið magn kolefnis út í andrúmsloftið.

Erfiðlega hefur gengið fyrir eistnesk stjórnvöld að ráðast í endurheimt mómýranna vegna andstöðu margra heimamanna í sveitum landsins. Nokkrum endurheimtarverkefnum hefur þegar verið frestað af þessum sökum.

Nú segir blaðið Politico að loftslags- og varnarmálaráðuneyti Eistlands ræði nú um hvort að endurheimt mómýra gæti nýst til þess að verjast mögulegri innrás Rússa í framtíðinni. Mýrarnir geti bæði bundið kolefni og teppt för rússneskra skriðdreka.

Hugmyndin er enn sögð á frumstigi. Bæði finnsk og pólsk stjórnvöld hafa áður sagst skoða endurheimt votlendis við austurjaðar Atlantshafsbandalagsins sem bæði loftslags- og varnaraðgerð.

Eystrasaltsríkin þrjú hafa einnig rætt um að nýta núverandi votlendissvæði sem hluti af sameiginlegri varnarlínu sinni. Fram að þessu hefur þó ekki komið til tals að endurheimta votlendi gagngert í þeim tilgangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×