Körfubolti

Misstu Martin út en sneru leiknum og unnu Svía

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jón Axel tryggði Íslandi sigur af vítalínunni undir lok leiks. 
Jón Axel tryggði Íslandi sigur af vítalínunni undir lok leiks.  vísir

Ísland vann Svíþjóð 72-70 í æsispennandi æfingaleik liðanna í undirbúningi fyrir Evrópumótið í körfubolta.

Liðin börðust hart allan leikinn, buðu upp á fína skemmtun og forystan skiptist margoft.

Þegar komið var fram í miðjan fjórða leikhluta var Ísland lent nokkrum stigum undir en strákunum okkar tókst að snúa leiknum við á lokamínútunum. Þrátt fyrir að vera án Martins Hermannssonar, sem var farinn út af með fimm villur.

Aðrir stigu upp og þá sérstaklega Jón Axel Guðmundsson, sem endaði stigahæstur eftir að hafa sett nokkrar stórar körfur og tryggt sigurinn af vítalínunni.

Jón Axel skoraði 15 stig, greip 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Martin Hermannsson kom næstur á eftir honum með 14 stig, auk 4 stoðsendinga. Tryggvi Hlinason lét mest til sín taka í fráköstunum og reif 12 bolta niður af spjaldinu.

Ellefu af þrettán leikmönnum hópsins tóku þátt í leiknum. Sigtryggur Arnar Björnsson og Kári Jónsson sátu báðir hjá.

Ísland spilar annan æfingaleik á morgun gegn heimamönnum Portúgals.

Förinni er svo haldið hingað heim áður en leiðin liggur til Litáen þann 21. ágúst í síðasta æfingaleikinn áður en haldið er til Katowice í Póllandi. Evrópumótið sjálft hefst þar þann 27. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×