Innlent

Kominn úr lífs­hættu eftir stunguárás við Mjóddina

Jón Þór Stefánsson skrifar
Árásin átti sér stað á bílastæði við Mjóddina.
Árásin átti sér stað á bílastæði við Mjóddina. Vísir/Vilhelm

Maður á fertugsaldri sem var stunginn við Mjóddina síðastliðið föstudagskvöld er kominn úr lífshættu og horfir til betri vegar, en ástand hans er enn alvarlegt.

Þetta segir E. Agnes Eide Kristínardóttir, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu.

Greint var frá því á dögunum að einn maður á þrítugsaldri, sá sem er grunaður um að stinga hinn, hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Að sögn Agnesar liggur ekki alveg ljóst fyrir hvort og hvernig mennirnir tengist.

„Það er eitthvað sem fer þarna þeirra á milli væntanlega. Hvað það er er bara eitthvað sem nú er verið að skoða, hvers lags samskipti það hafa verið,“ segir hún.

Lögreglu barst tilkynning um málið skömmu eftir að klukkan sló ellefu síðastliðið föstudagskvöld. Stunguárásin er sögð hafa orðið á bílastæði við Mjóddina. Þegar lögreglu bar að garði bar sá sem var stunginn sig illa.

Hinn grunaði var handtekinn skammt frá vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×