Skoðun

Að for­tíð skal hyggja þegar fram­tíð skal byggja

Einar G. Harðarson skrifar

Veiðigjaldafrumvarpið sem nú liggur fyrir er ekki tilviljun eða afleiðing einnar ríkisstjórnar. Það er niðurstaða fjögurra áratuga deilna milli útgerðar og almennings. Í gegnum tíðina hefur útgerðin sýnt lítinn sem engan vilja til málamiðlana – og ítrekað talað um kvótann eins og hann sé einkaeign.

Þegar staðan hefur verið stál í stál í nær 40 ár, og engin málamiðlun í sjónmáli, þá fer málinu að halla – og annað hvort heldur útgerðin öllu, eða tapar öllu eins og í sríði. The winner takes all.

Ég ætla ekki að rengja að einhverjar útgerðir muni skila tapi í kjölfar frumvarpsins – en spyr samt: Af hverju? Og er tapið í raun tap, eða einfaldlega minni gróði en áður t.d vegna afskrifta eigna og/eða kvóta?

Það má vel vera að frumvarpið hefði mátt útfæra betur – það skal ósagt látið. En þetta er það sem lýðræðislega kjörinn meirihluti hefur ákveðið að leggja fram og samþykkja. Þá verða menn einfaldlega að una því – ef virðing á að ríkja fyrir lýðræðinu.

Útgerð sem gleymdi þjóðinni

Það sem skiptir meira máli er hvernig útgerðin hefur hagað sér síðustu ár. Með viðskiptum sem hafa litla tengingu við samfélagslega ábyrgð – þar sem kvóti hefur verið keyptur fyrir hundruð milljarða, oft af óljósum aðilum, og peningarnir horfnir út í óvissuna.

Meira að segja byggðarlög hafa verið skilin eftir án atvinnugreinarinnar sem þau byggðu á. Kvóti er tekinn, fluttur – og samfélögin skilin eftir í tómarúmi. Í sumum tilfellum má líkja því við hamfarir – og þá er ekki ýkt. Í Grindavík eru náttúruhamfarir, þar sem fiskurinn kemur ekki lengur að landi (það kostaði ríkið tugi ef ekki hundruð milljarða kr.). Það hefur miklar þjóðhagslegar afleiðingar. En það hefur einnig þjóðfélagslegar afleiðingar þegar fiskurinn er tekinn með valdi úr sjávarplássum og sendur annað – af mannanna völdum.

Þetta eru félagslegar hamfarir. Og ábyrgðin liggur hjá útgerðinni.

Ótrygg fjárfesting

Við skulum líka spyrja: Hvaða fjárfesting er þetta eiginlega sem útgerðin hefur staðið í? Í eðlilegu viðskiptalífi er það talin áhætta að kaupa eign af aðila sem á hana ekki formlega. En hvað eru kvótaviðskipti annað? Nú, þegar veiðigjöldin hækka, koma taprekstrartölur fram. En er það ekki einfaldlega afleiðing fjárfestingar í óöruggri eign?

Í venjulegum rekstri ber kaupandinn ábyrgð á eigin áhættu. Hann sýpur seyðið ef fjárfestingin bregst. Það ætti að gilda líka hér.

Söguleg skammsýni getur kostað okkur framtíðina

Ég styð stjórnarandstöðu að öllu jöfnu – en ef þau halda áfram á braut einhliða hagsmunagæslu, þar sem litið er aðeins til framtíðar án þess að horfa til fortíðar, þá kann illa að fara. Það er engin sanngirni í stefnu sem hundsar reynsluna.

Við verðum að læra af því sem var – ef við ætlum að byggja eitthvað betra. Ef grímulaus hagsmunagæsla heldur áfram óáreitt, þá fer hugsanlega enn verr.

Höfundur er löggiltur Fasteignasali.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×