Innlent

Sam­fylking tekur aftur fram úr Sjálf­stæðis­flokki

Jón Þór Stefánsson skrifar
Oddvitar flokkanna sem mælast stærstir: Hildur Björnsdóttir og Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri.
Oddvitar flokkanna sem mælast stærstir: Hildur Björnsdóttir og Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri. Vísir/Vilhelm

Samfylkingin mælist stærsti flokkurinn í Reykjavík í nýrri skoðanakönnun og Sjálfstæðisflokkurinn næst stærstur.

Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu fyrir DV. Könnunin fór fram á milli 20. og 30. júní, og voru svarendur 1035 talsins.

Samfylkingin mælist með 29,4 prósent fylgi, en í síðustu könnun Maskínu, frá því í apríl, mældist flokkurinn með 25,3 prósent.

Í síðustu könnun mældist Sjálfstæðisflokkurinn stærstur, með 31,9 prósent fylgi, en mælist nú með 25,5 prósent.

Viðreisn mælist þriðji stærsti flokkurinn með 12,2 prósenta fylgi, Sósíalistar með 6,6 prósent, Miðflokkurinn rétt á eftir með 6,4 prósent. Þá mælast Píratar með 5,8 prósent og Vinstri grænir fá nánast jafn mikið, með 5,7 prósent. Flokkur fólksins mælist með 4,8 prósenta fylgi.

Framsóknarflokkurinn, sem vann kosningasigur í síðustu borgarstjórnarkosningum með tæplega nítján prósent fylgi, mælist nú með 3,8 prósent.

Í frétt DV er bent á að samkvæmt þessari könnun myndi meirihluti Samfylkingar, Sósíalista, Pírata og Vinstri grænna halda velli, miðað við niðurstöðu þessarar könnunar.

Þá myndi Framsóknarflokkurinn missa þrjá af sínum fjórum fulltrúum. Viðreisn myndi fá þrjá fulltrúa. Og Miðflokkurinn myndi ná einum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×