Innlent

Mesta fylgi síðan 2009

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar. Vísir/Vilhelm

Samfylkingin er með mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með síðan árið 2009 eða í sextán ár. Aðrir stjórnarflokkar tapa fylgi og stuðningur við ríkisstjórnina dalar lítillega.

Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup en Ríkisútvarpið greinir frá. Samkvæmt umfjöllun þess bætir Samfylkingin við sig prósentustigi á milli mánaða og fer úr 30,7 prósentum í 31,8 prósent en líkt og þar er bent á hefur flokkurinn ekki mælst með meira fylgi síðan í apríl 2009 í stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur.

Fylgi Viðreisnar og Flokks fólksins minnkar á milli mánaða. Viðreisn mælist með 13,7 prósent og Flokkur fólksins mælist nú með 6,5 prósent og missir prósentustig.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar á milli mánaða um tæpt prósentustig en hann mælist nú með 20,6 prósenta fylgi. Framsókn mælist með 5,6 prósent en Miðflokkurinn bætir við sig og mælist nú með 10,7 prósent fylgi.

Píratar mælast með 4,1 prósent fylgi og Sósíalistar með 3,3 prósent. Ítarlega hefur verið fjallað um svæsnar deilur innan Sósíalistaflokksins undanfarnar vikur. Vinstri græn mælast með 3,2 prósent.

Þá minnkar stuðningur við ríkisstjórnina um fjögur prósentustig á milli mánaða og er nú í 63 prósentum.

Ef miðað er við þingmannafjölda bætti Samfylkingin við sig átta þingmönnum ef horft er til síðustu kosninga og fengi 23 þingmenn yrði gengið til kosninga í dag. Sjálfstæðisflokkurinn færi úr fjórtán í fimmtán en Flokkur fólksins tapaði sex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×