Fótbolti

Sonur Ancelottis orðaður við Rangers

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Feðgarnir Davide og Carlo Ancelotti.
Feðgarnir Davide og Carlo Ancelotti. getty/Angel Martinez

Carlo Ancelotti er búinn að fá nýtt þjálfarastarf og nú er sonur hans, Davide, orðaður við sögufrægt félag.

Í gær var greint frá því að Ancelotti myndi hætta sem knattspyrnustjóri Real Madrid eftir tímabilið og taka við brasilíska landsliðinu. Hann verður fyrsti útlendingurinn sem þjálfar Brasilíu.

Davide er einnig á förum frá Real Madrid en næsti stjóri liðsins, Xabi Alonso, mun taka með sér sitt eigið þjálfarateymi til Madrídar.

Hinn 35 ára Davide hefur aðstoðað föður sinn hjá Real Madrid, Everton, Napoli og Bayern München en nú gæti hann orðið sinn eigin herra. Hann hefur nefnilega verið orðaður við stjórastarfið hjá Rangers í Skotlandi.

Philippe Clement var rekinn sem stjóri Rangers í febrúar og Barry Ferguson, fyrrverandi leikmaður liðsins, hefur stýrt því síðan þá.

Rangers er í 2. sæti skosku úrvalsdeildarinnar með 71 stig, sautján stigum á eftir meisturum Celtic, þegar tveimur umferðum er ólokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×