Innlent

Efna­hags- og við­skipta­nefnd taki fyrir „tvö­földun á skatti“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hildur Sverrisdóttir segir ljóst að um sé að ræða skatt.
Hildur Sverrisdóttir segir ljóst að um sé að ræða skatt. Vísir/Anton Brink

Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins vill að frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjald fari fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í stað atvinnuveganefndar að lokinni fyrstu umræðu. Hún lagði til að atkvæðagreiðsla þess efnis fari fram.

Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður ávarpaði þingið undir fundarstjórn forseta í dag.

„Frasapólitík þessarar ríkisstjórnar hæstvirtrar, er með miklum ólíkindum. Sanngirnis- og réttlætistal hljómar mjög mikið og mál það sem við ræðum hér er víst leiðrétting þegar það er augljóslega um skatt að ræða, bæði samkvæmt efni málsins og einnig samkvæmt mjög skýru orðalagi í frumvarpinu sjálfu. Því leggjum við í stjórnarandstöðunni til að málið gangi til efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og leggjum til að atkvæðagreiðsla fari fram um það í samræmi við 39. gr. þingskapalaga,“ sagði hún á Alþingi í dag.

Hún segir betra fyrir þinglega meðferð málsins að nefndin sem sér um skattamál ríkisins taki málið fyrir.

„Það blasir við að samkvæmt efni máls að er hér um að ræða hækkun á veiðigjöldum sem óumdeilt er skattur eins og segir með mjög skýru orðalagi í frumvarpinu sjálfu. Þar sem efnahags- og viðskiptanefnd fer með skattamál ríkisins teljum við að væri betra fyrir þinglega meðferð að málið fari í þá nefnd þar sem um tvöföldun á skatti er að ræða fyrst og fremst," segir Hildur í samtali við fréttastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×