Erlent

Yfir­völd Mexíkó kæra Google

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Claudia Sheinbaum er forseti Mexíkó.
Claudia Sheinbaum er forseti Mexíkó. AP

Yfirvöld í Mexíkó hyggjast kæra tæknifyrirtækið Google fyrir að breyta nafni Mexíkóflóa í Ameríkuflóa á landakortunum sínum í Bandaríkjunum. Þetta sagði Claudia Sheinbaum, forseti Mexíkó.

Fyrsta dag sinn í embætti undirritaði Donald Trump Bandaríkjaforseti forsetatilskipun um að breyta ætti heiti Mexíkóflóa í Ameríkuflóa. Rökstuðningur forsetans fyrir ákvörðuninni var að Bandaríkin „vinna mestu vinnuna þar og hann er okkar.“

Eftir tilskipunina breytti Google heitinu á flóanum á landakortum bandarískra notenda Google í Ameríkuflóa. Þeir segjast hafa breytt heitinu þar sem venjan sé að breyta merkingum á landakorti í samræmi við ákvarðanir yfirvalda.

Sheinbaum sendi yfirmönnum fyrirtækisins bréf í janúar og bað þá um að endurskoða breytinguna. Mánuði seinna hótaði hún lögsókn. Í tilkynningu Sheinbaum segir hún ekki hvort búið sé að leggja fram kæruna.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem breytingin veldur átökum. Blaðamenn AP fréttaveitunnar neituðu að nota nýja heitið í fréttum sínum og var þeim þar af leiðandi meinaður aðgangur að blaðamannafundum í Hvíta húsinu. Þrátt fyrir úrskurð dómara í málinu er blaðamönnum fréttaveitunnar enn meinaður aðgangur. Fulltrúar Hvíta hússins hafa áfrýjað dómnum.

Í umfjöllun BBC segir að Donald Trump hyggst breyta heiti annars flóa. Framundan er ferðalag hans til Sádi-Arabíu en þar kemur hann til með að tilkynna áætlun sína að breyta nafni Persaflóa í Arabíuflóa. Persaflói er á milli Íran og Sádi-Arabíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×