Viðskipti innlent

Pizzur í stað smur­brauðs á nýrri Króníku

Lovísa Arnardóttir skrifar
Frá vinstri eru Lucas Keller sem hannaði matseðilinn, Matthías Már matreiðslumeistari og Bragi eigandi Króníkunnar.
Frá vinstri eru Lucas Keller sem hannaði matseðilinn, Matthías Már matreiðslumeistari og Bragi eigandi Króníkunnar. Aðsend

Búið er að skipta út smurbrauðinu á veitingastaðnum Krónikunni fyrir pizzur. Nýr matseðill er hannaður af Lucas Keller sem áður rak Cocoo‘s Nest. Veitingastaðnum var breytt til að taka betur mið af þörfum ungra barnafjölskyldna sem koma reglulega á svæðið en veitingastaðurinn er rekinn við Gerðasafn í Kópavogi.

Króníkan var þannig enduropnuð á sumardaginn fyrsta sem pizzastaðurinn Krónikan pízzerí og fínerí. Eigandi veitingastaðarins, Bragi Skaftason, segist hafa tekið þá ákvörðun að staðurinn myndi skipta um matseðil eins og listasafn skiptir um sýningar.

Hann opnaði Króníkuna upprunalega með systur sinni, Sigrúnu Skaftadóttur, fyrir tveimur árum sem smurbrauðsstað. Sigrún hefur rekið staðinn síðustu tvö ár en Bragi er nú orðinn einn eigandi hans. Þegar staðurinn var opnaður var lögð áhersla á smörrebröd, rammíslenskar kaffiveitingar, góð vín, bjór og ákavíti.

„Ég opnaði Krónikuna með elsku systur minni Sigrún Skaftadóttur fyrir tæpum tveimur árum síðan. Fallegt húsnæði í Gerðarsafni og gaman að gera næs stöff í gamla heimabænum. Smörre í Kópavogi fannst mér alveg góð hugmynd og hún varð að veruleika og ég sé ekki eftir því. Ég er samt með massa mikið ógreint ADHD og nenni ekki hlutum sem mér finnast ekki endast lengi. Ég tók þá ákvörðun að staðurinn myndi skipta um listamann eins og safnið skiptir um sýningar,“ segir Bragi um ákvörðunina á Facebook.

Í samtali við fréttastosfu segist Bragi hafa hugsað breytinguna vel og lengi, og þurft að taka tillit til þess að, til dæmis, eldhúsið sé lítið og ekki hægt að gera hvað sem er þar.

„En við getum gert þetta vel. Við vorum að horfa á ákveðinn markhóp með smurbrauðið. Það gekk alveg en umhverfið er þannig að það er svo mikið af ungum fjölskyldum. Það hefur vantað eitthvað fyrir þær að sækja og við ákváðum að bregðast við því,“ segir Bragi í samtali við fréttastofu.

Bragi ákvað þá að leita til Lucas Keller, sem áður átti og rak Cocoo‘s Nest á Granda, til að hanna nýjan matseðil. Lucas starfar ekki á sjálfum staðnum en mun sjá um gæðaeftirlit.

„Hann er kominn í þetta, að hanna seðla. Fólk getur þó ekki búist við því að sjá Lucas þarna þó að honum bregði eflaust við af og til.“

Fullt í smakk og opnun

Bragi telur að um 450 hafi mætt á enduropnunina á sumardaginn fyrsta.

„Þetta var rosalegt. Við bjuggumst við hundrað manns. Teljarinn taldi 1.700 en maður verður að deila í 3,5 því fólk fer inn og út, þannig það eru um 450,“ segir Bragi í samtali við fréttastofu.

Hann segir hafa verið mikið líf í kringum staðinn í gær í sólinni og mjög margir hafi verið á staðnum til þess að prófa nýju pizzurnar.

„Við elduðum og elduðum. Þetta var alveg kreisí.“

Matseðill staðarins er nú tvískiptur í annars vegar pizzerí og hins vegar fínerí. Á pízzerí-matseðlinum eru pizzur en á hinum eru ýmsir smáréttir og sætindi.

„Við gerum allt á staðnum, það eru engar vörur keyptar inn,“ segir hann.

Matthías Már Kristjánsson matreiðslumeistari hefur verið ráðinn til að elda matinn á staðnum. Hann hefur síðastliðið ár unnið á Vínstúkunni en færir sig nú yfir á Krónikuna. Bragi er einnig einn eigenda Brút og Hressó. Áður átti hann í Veður og Vínstúkunni en hefur nú selt sig úr því.

Lucas með salami-pylsurnar sem eru notaðar á pizzurnar.Aðsend

Bragi segir tvær pizzanna hafa slegið í gegn. Báðar eru þær hvítar, það er engin rauð sósa á þeim. Önnur er með rósmarín og sítrónu og hin með pecorino og svörtum pipar.

„Bragðið kemur skemmtilega á óvart í þeim.“

Öðruvísi pepperóní pizza

Á matseðlinum er svo einnig að finna þeirra „teik“ á klassískri pepperóní-pizzu, Diavola. Á hana nota þeir salami frá pylsugerðarmanninum Rpberto Tariello en hann framleiðir pylsur úr íslenskum hráefnum eftir gamalli ítalskri hefð í Þykkvabæ.

„Við notum salami frá honum en þau eru ekki endilega voðalega sterk þannig hitinn í pizzunni er ekki frá salami-inu heldur úr sichuan-pipar sírópi sem við búum til. Svakalega góð pizza,“ segir Bragi.

Auk þess að breyta nafninu og matseðlinum segir Bragi að opnunartíminn muni breytast. Í stað þess að fylgja viðburðum í Salnum verði alltaf opið til 21. Á döfinni sé svo að bæta við garðhúsi fyrir utan þannig fólk geti setið fyrir utan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×