Erlent

Diddy ekki veittur aukafrestur

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Diddy hefur setið í fangelsi í Brooklyn í New York síðan í september.
Diddy hefur setið í fangelsi í Brooklyn í New York síðan í september. Getty/Dave Benett

Dómari í New York ríki í Bandaríkjunum hafnaði í dag beiðni rapparans Sean „Diddy“ Combs um að fresta réttarhöldunum yfir honum um tvo mánuði. Þannig eru réttarhöldin áfram fyrirhuguð þann 5. maí næstkomandi.  

Mál Combs hefur vakið heimsathygli en hann hefur verið ákærður fyrir skipulagða glæpastarfsemi og kynferðisbrot. Þá hafa ótal einkamál verið höfðuð gegn honum í tengslum við meðal annars nauðganir og mansal.

Combs, sem er 55 ára, hefur hafnað sök í fimm ákæruliðum sem varða fjárkúgun og mansal. Saksóknarar í Manhattan saka rapparann um að notfæra sér viðskiptaveldi sitt til að misnota konur kynferðislega á tuttugu ára tímabili, frá 2004 til 2024. 

Lögmenn Combs segja samþykki hafa verið fyrir hendi í öllum þeim kynferðisathöfnum sem lýst er í ákærum á hendur honum. 

Einn þeirra, Marc Agnifilio, lagði í byrjun apríl fram beiðni um að réttarhöldunum yrði frestað um tvo mánuði til þess að meiri tími gæfist til undirbúnings, sem fælist meðal annars í að lesa tölvupósta sem hann hefði rukkað einn meintra þolenda um. Arun Subramanian héraðsdómari féllst ekki á beiðnina. 

Í frétt Reuters um málið segir að ríkissaksóknarar hafi verið andvígir hvers lags seinkun á réttarhöldunum. Fyrr í mánuðinum hafi bæst í ákærur á hendur Combs en þær hafi ekki falið í sér ný gögn eða upplýsingar. 

Subramanian sagði einnig í yfirheyrslu í gær að nokkrum meintum þolendum byðist sá kostur að gefa vitnisburð sinn undir nafnleynd af öryggisástæðum. 


Tengdar fréttir

Myndband sýnir árás Diddy

Myndefni sýnir tónlistarmanninn Sean „Diddy“ Combs ráðast gegn fyrrverandi kærustu hans, Cassie Ventura. Myndefnið er frá árinu 2016 úr öryggismyndavélum InterContinental-hótelsins í Los Angeles-ríki Bandaríkjanna.

Combs sakaður um enn eina kynferðisárásina

Enn einn einstaklingurinn hefur stigið fram og ásakað tónlistar- og athafnamanninn Sean „Diddy“ Combs um kynferðisofbeldi. Kona að nafni Thalia Graves hefur höfðað mál gegn rapparanum, sem hún segir hafa nauðgað sér í New York árið 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×