Íslenski boltinn

„Hugur minn er bara hjá henni“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Guðni Eiríksson, þjálfari FH.
Guðni Eiríksson, þjálfari FH. Vísir/Hulda Margrét

„Vigdís er borin út af, sem veit aldrei á gott. Hún er uppi á spítala núna“ sagði Guðni Eiríksson, þjálfari FH, um meiðsli sem miðvörðurinn Vigdís Edda Friðriksdóttir varð fyrir á Hlíðarenda.

„Þetta er hnéð á henni og hnémeiðsli, þau eru stórhættuleg maður. Þannig að það er hrikalega svekkjandi fyrir hana vegna þess að hún var algjörlega frábær áður en hún meiðist. Hún hefur lent í erfiðum meiðslum áður, þetta er búið að vera þrautarganga fyrir hana að vera inni á vellinum og þungt högg fyrir hana. En við bara föðmum hana og pössum upp á“ hélt hann svo áfram.

Guðni sá ekki nógu vel hvað olli meiðslunum en Vigdís virðist hafa fengið slæmt högg á hnéð þegar hún og Jasmín Erla, leikmaður Vals, hlupu óvart á hvora aðra.

„Þetta var eitthvað samstuð bara… Eins og ég segi bara ótrúlega leiðinlegt, ömurlegt fyrir hana og hugur minn er bara hjá henni. Þetta stig var fyrir hana.“

„Virkilega börðumst fyrir þessu“

Um leikinn sjálfan sagði Guðni stigið sterkt, ánægður með hreint mark á Hlíðarenda.

„Það er sterkt að sækja stig á Hlíðarenda og eitthvað sem FH liðið er ekki vant að gera, síðustu árin. Þannig að það er gott og leikmenn FH liðsins svo sannarlega börðust fyrir þessu stigi og eiga það bara skilið… Skoruðum vissulega ekki en héldum markinu hreinu og sköpuðum okkur einhver færi. Sýndum hvað við vildum þetta mikið og virkilega börðumst fyrir þessu. Mér fannst áran vera með liðinu í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×