Málsatvikin voru á þá leið að þegar Margrét var á leið um borð í vélina var henni gert að skilja handfarangurstösku sína eftir, en flugvallarstarfsmenn vilja færa hana í farangursrými vélarinnar. Margrét mun hafa verið ósátt með það.
Síðan þegar hún kom inn í vélina var henni gert að setja upp grímu, en atvik málsins áttu sér stað þegar kórónuveirufaraldurinn stóð yfir. Margrét var líka ósátt með það.
Vegna þessara tveggja mála varð ágreiningur milli Margrétar og áhafnar vélarinnar, sem lauk með því að lögregla var kölluð til og vísað frá borði.
Ágreiningur málsins snerist um hvort Icelandair hafi verið heimilt að vísa henni frá borði. Héraðsdómur komst að því að Margréti hefði ekki tekist að sanna að óheimilt hafi verið að hafna henni um að hafa farangurstöskuna um borð, og þá hefði ákvörðun flugstjóra um að vísa henni úr vélinni verið heimil.
Vildi fjórtán milljónir fyrir heimildarmynd sem ekkert varð úr
Margrét var á leið til Rússlands og þaðan til hersetinna svæða í Úkraínu. Þar ætlaði hún, meðal annars ásamt Ernu Ýr Öldudóttur, að taka upp heimildarmynd
Líkt og áður segir krafðist Margrét um 24 milljóna í skaða- og miskabætur. Stærstur hluti þeirrar upphæðar varðaði bætur vegna „eyðilagðrar“ heimildarmyndar. Hún vildi 14,2 milljónir vegna hennar, en kröfufjárhæðin tók mið af lágmarksverðlagningu streymisveitunnar Netflix á heimildarmyndum, en Margrét hafði í hyggju að selja sýningarréttinn þangað.
„Ljóst er að um einstakt myndefni í sérflokki hefði verið að ræða þar sem enginn í heiminum hefur náð þeirri aðstöðu líkt og stefnandi að geta unnið heimildarmynd um stríðið í Úkraínu með því að komast á þau svæði þar sem barist var á þessum tíma,“ sagði í stefnu Margrétar.
Viss um að Netflix myndi vilja sýna myndina
Fram kom í skýrslu Margrétar fyrir dómi að hún hefði verið í sambandi við Angels Studio, sem mun vera með samning um dreifingu kvikmynda við Netflix. Hún hafi fengið þau svör að ef hún hefði hugmynd að heimildarmynd gæti hún sent þeim hugmyndina.
Margrét sagðist viss um að hugmyndin að myndinni sem hún ætlaði sér að gera yrði samþykkt. Ekki hafi verið rætt um verð fyrir myndina og enginn samningur verið undirritaður.
Héraðsdómur féllst ekki á kröfu Margrétar um tjónið vegna eyðilagðrar heimildarmyndar þar sem krafan væri einungis byggð á staðhæfingum hennar. Dómurinn taldi hana ekki hafa sýnt fram á raunverulegt tjón.