Skoðun

Diplómanám er ekki nóg – tími til kominn að endur­skoða að­gengi fatlaðs fólks að há­skóla­námi

Sigurður Hólmar Jóhannesson skrifar

11. apríl hélt Þroskahjálp málþing þar sem rætt var um svokallað Diplómanám Háskóla Íslands – eina formlega námsleiðin sem stendur fötluðu fólki með þroskahömlun til boða innan háskólakerfisins.

Það er vissulega jákvætt að slíkt nám sé í boði, en staðan í dag er samt mjög takmörkuð og í raun ekki í takt við þau réttindi sem fatlað fólk á að njóta samkvæmt lögum og samningum.

Á málþinginu komu fram raddir sem bentu á að fötluðu fólki ætti ekki að vera ætlað eitt sérstakt „nám fyrir fatlaða“. Fólk er ólíkt og með ólíka hæfileika – og rétt eins og aðrir ætti það að geta valið sér nám út frá áhuga og styrkleikum.

Diplómanámið eins og það er í dag er afmarkað og útilokar raunverulegan aðgang að fjölbreyttu háskólanámi.

Samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland er aðili að, á fatlað fólk rétt á aðgengi að menntun án aðgreiningar.

Þar segir skýrt að fatlað fólk eigi rétt á menntun á öllum skólastigum, með viðeigandi stuðningi og aðlögun.

Það er því tímabært að við förum að spyrja:

Af hverju er enn þá bara eitt nám í boði?

Hvað hindrar það að fleiri námsleiðir séu aðgengilegar?

Hvað þarf til svo að háskólarnir sjálfir taki virkan þátt í því að gera menntun aðgengilega fyrir alla?

Við verðum að horfa lengra en bara að „bjóða eitthvað“ – við þurfum að tryggja raunverulegan rétt til náms og þátttöku í samfélaginu. Diplómanámið getur verið góður kostur fyrir suma, en það má aldrei verða eini valkosturinn.

Höfundur er framkvæmdastjóri Góðvildar.




Skoðun

Sjá meira


×