Prinsinn fékk 388 þúsund evrur, eða rúmar 56 milljónir króna, í framfærslueyri frá belgíska ríkinu í fyrra. Auk opinberra starfa hans sem prins hefur hann rekið dýraverndarsamtök síðastliðinn áratug.
Hann stefndi belgíska ríkinu í fyrra fyrir að hafa hafnað beiðni hans um almannatryggingar, sem hann sagðist eiga rétt á vegna þess að hann væri að hluta til sjálfstætt starfandi. Hann þyrfti á bótunum að halda meðal annars vegna sjúkrakostnaðar og til að tryggja fjárhag fjölskyldu hans eftir að hann fellur frá.
Þá sagðist hann reka málið af prinsippástæðum, frekar en peninganna vegna.
Dómstóll í Belgíu féllst ekki á þennan málflutning Laurents, og sagði hann hvorki teljast sjálfstætt starfandi né launþegi. Konunglegar skyldur hans teldust mun frekar til opinberra starfa.
Kenndur við vandræði
Olivier Rijckaert lögmaður Laurent segist íhuga áfrýjun. Í samtali við belgíska miðilinn Le Soir segir hann stærstan hluta framfærslueyrisins fara í að borga aðstoðarmanni Laurents og tilfallandi ferðakostnað. Að því frátöldu standi einungis um fimm þúsund evrur eftir á mánuði til ráðstöfunar. Hann eigi lögvarinn rétt á almannatryggingum sem hann fær ekki.
Í frétt BBC segir að málið sé ekki fyrsta ágreiningsmál Laurent, og hann sé iðulega kallaður „hinn bölvaði prins“ meðal Belga. Árið 2018 samþykkti belgíska þingið að skera niður framfærslueyri til hans í heilt ár eftir að hann mætti í veislu í kínverska sendiráðið klæddur í einkennisbúning sjóhermanna, án leyfis ríkisstjórnarinnar.
Þá hefur hann nokkrum sinnum verið sektaður fyrir of hraðan akstur. Hann sætti einnig gagnrýni fyrir opinberar heimsóknir sínar til Líbíu í valdatíð Muammar Gaddafi.