Fótbolti

Gleði­fréttir fyrir Ís­land: Glódís spilaði fyrir lands­leikina mikil­vægu

Sindri Sverrisson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir, liðsfélagar og lykilmenn í íslenska landsliðinu, mættust í Þýskalandi í dag.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir, liðsfélagar og lykilmenn í íslenska landsliðinu, mættust í Þýskalandi í dag. Getty/Alex Nicodim

Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins og Bayern München, ætti að geta tekið þátt í leikjunum mikilvægu við Noreg og Sviss í Þjóðadeildinni í fótbolta eftir að hafa spilað í toppslag við Leverkusen í dag.

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari varaði við því þegar hann valdi landsliðshóp sinn að aðeins helmingslíkur væru á að Glódís yrði með í leikjunum, sem eru næsta föstudag og svo þriðjudaginn 8. apríl.

Glódís var hins vegar með gegn Leverkusen í dag, eftir að hafa ekki getað spilað að undanförnu vegna hnémeiðsla, og virtist ekki kenna sér meins þegar hún skokkaði af velli á 82. mínútu. Þá var staðan þegar orðin 2-0 sem urðu lokatölur leiksins.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var í byrjunarliði Leverkusen en var skipt af velli á 66. mínútu, skömmu áður en Lea Schüller skoraði seinna mark Bayern. Klara Bühl hafði gert fyrra markið á 56. mínútu.

Bayern er því með sex stiga forskot á Frankfurt á toppi deildarinnar, þegar aðeins fjórir leikir eru eftir, og virðist ætla að verja meistaratitil sinn. Leverkusen er með 36 stig í 4. sæti, nú elleftu stigum á eftir Bayern.

Hlín mætti Tottenham en Telma þarf að bíða áfram

Hlín Eiríksdóttir kom inn á sem varamaður hjá Leicester á 72. mínútu, í 1-1 jafntefli við Tottenham.

Leicester er með 16 stig í 10. sæti deildarinnar, sjö stigum fyrir ofan botnlið Crystal Palace, en Tottenham er með 18 stig í 9. sæti.

Í skosku úrvalsdeildinni var Telma Ívarsdóttir ekki í leikmannahópi Rangers sem vann 4-0 sigur á Hearts. Hún bíður því áfram eftir sínu fyrsta tækifæri í deildinni eftir komuna frá Breiðabliki í janúar.

Hlín, Telma, Karólína og Glódís eiga allar sæti í íslenska landsliðshópnum sem á fyrir höndum mikilvæga leiki við Noreg og Sviss á Þróttarvelli í Þjóðadeildinni, næsta föstudag og þriðjudaginn 8. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×