Klukkan 2:23 í nótt skrifaði nafnlaus íbúi færslu á hverfisgrúppunni „Norðurbærinn minn - íbúar í Norðurbæ í Hafnarfirði“ um flugeldasýningu í hverfinu.
„Hvaða endemis hálfviti ákvað að það væri skynsamlegt að halda flugeldasýningu klukkan 02.20 núna rétt í þessu?“ skrifaði viðkomandi í færslunni og uppskar fjölda reiði-viðbragða og tugi ummæla.
Fólk var fljótt að leita að sökudólgum og skrifuðu nokkrir að Ölhúsið bæri þarna ábyrgð og að verið væri að fagna lokun staðarins. Á móti tóku aðrir upp hanskann fyrir Ölstofuna í morgun og sögðu flugeldana ekki tengjast barnum neitt. Fréttastofa hafði samband við Ólaf Guðlaugsson, eiganda Ölhússins, til að forvitnast um málið.
Ungir menn á partýrútu beri ábyrgðina
„Guð minn góður, það var nú ekki á okkar ábyrgð, segir mér starfsfólkið sem var að vinna í gær,“ sagði Ólafur þegar fréttastofa spurði hann út í flugeldasýninguna í nótt.
„Þetta voru bara einhverjir ungir menn að gera sér glaðan dag á partýrútu,“ bætti hann við.

Að sögn Ólafs hafi rútan stoppað fyrir utan Ölhúsið heldur á bílaplani milli barsins og bensínstöðvar Orkunnar. Þar hafi nokkrir ungir menn stokkið út og skotið þar upp tertum.
Þannig þetta var ótengt ykkur?
„Já, almáttugur. Við myndum aldrei gerast svo djarfir að gera fólki það að sprengja flugelda á nóttunni,“ sagði hann og bætti við: „Þetta er algjör dónaskapur að vera að gera fólki þetta.“
Urðuð þið var við þetta á barnum? Var þetta ekki mikill hávaði?
„Nei, veistu það, ég var að spyrja fólk sem var þarna í gær og það tók ekki einu sinni eftir þessu. Þeir fara með þetta til hliðar við húsið,“ sagði Ólafur.
„Það er voða hentugt að kenna okkur um þetta en við erum alsaklaus af þessu,“ bætti hann við.