Erlent

Í­trekar ósk Pól­verja um banda­rísk kjarna­vopn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Duda vill kjarnavopn frá Bandaríkjunum, þrátt fyrir að Pútín myndi líta á það sem hreina og klára stríðsyfirlýsingu.
Duda vill kjarnavopn frá Bandaríkjunum, þrátt fyrir að Pútín myndi líta á það sem hreina og klára stríðsyfirlýsingu. AP

Andrzej Duda, forseti Póllands, hefur ítrekað vilja pólskra stjórnvalda til að heimila Bandaríkjamönnum að koma upp kjarnavopnum í landinu.

Hann segir það myndu gera Pólland öryggara og sterkara, andspænis ógninni sem steðjar að frá Rússlandi. Duda segir stjórnvöld í Moskvu að jafn ásælin, ef ekki ásælnari en fyrrum Sovétríkin.

Forsetinn hefur áður talað fyrir því að Bandaríkjamenn komi kjarnavopnum fyrir í Póllandi, meðal annars í kjölfar þess að Rússar komu kjarnavopnum fyrir í Belarús. 

Það virðist ekki hræða hann að Vladimír Pútín Rússlandsforseti myndi líta á það sem jafngildi stríðsyfirlýsingar af hálfu Atlantshafsbandalagsins.

„Þessi varnaraðgerð er mikilvægt svar við hegðun Rússlands, að koma kjarnorkuvopnum fyrir á áhrifasvæði Nató. Pólland er reiðubúið til að hýsa þessi kjarnavopn,“ segir Duda.

Þá fagnar hann yfirlýsingu Emmanuel Macron Frakklandsforseta um að Frakkar séu reiðubúnir til að skýla öðrum Nató-ríkjum undir „kjarnavopnaregnhlíf sinni“.

Duda segir bandarísk kjarnorkuvopn í Póllandi myndu sýna og staðfesta skuldbindingu Bandaríkjamanna og vilja þeirra til að verja landið. Um það bil 10 þúsund bandarískir hermenn dvelja í Póllandi.

Pólverjar verja um það bil fimm prósent þjóðartekna sinna til varnarmála, meira en nokkurt annað Nató-ríki.

Duda segist sannfærður um að Donald Trump Bandaríkjaforseti sé með áætlun til að „hvetja“ Rússa til að ganga til samningaviðræðna um frið í Úkraínu. Þá segist hann telja einsýnt að rússneskar eignir sem hafa verið frystar vegna innrásarinnar verði notaðar til að byggja upp Úkraínu.

Ítarlega umfjöllun má finna hjá BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×