Innlent

Jón Gnarr vill skikkjur og hár­kollur á þing­menn

Jakob Bjarnar skrifar
Það situr greinilega í Jóni að honum hafi verið meinað aðgengi að þingsal vegna þess að hann var í gallabuxum. Hann sagði að það væri eiginkonu sinni að kenna að hann var í gallabuxunum, þetta hafi verið hennar hugmynd.
Það situr greinilega í Jóni að honum hafi verið meinað aðgengi að þingsal vegna þess að hann var í gallabuxum. Hann sagði að það væri eiginkonu sinni að kenna að hann var í gallabuxunum, þetta hafi verið hennar hugmynd. vísir/vilhelm

Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, hélt enn áfram að höggva í sömu knérunn og gerði að umtalsefni klæðaburð sinn og annarra þingmanna í ræðu sem hann flutti í dagskrárliðnum störf þingsins nú rétt í þessu.

Jón sagði að klæðaburður væri mikilvægt mál.

„Eins og flest ykkar vita varð mér það á í hugsunarleysi og fljótfærni kannski, en líka vegna þess að ég hafði ekki verið upplýstur um það með skýrum hætti, að ég kom hingað í gallabuxum. Þetta er ekki mér að kenna, þetta er öðrum að kenna, og þar vil ég sérstaklega nefna eiginkonu mína, þetta var hennar hugmynd,“ sagði Jón.

En eins og þingmaðurinn sagði var talsverð umræða um það þegar Jón mætti í gallabuxum og var víttur af forseta. 

Jón vildi beina sjónum að klæðaburði annarra þingmanna:

„Síðan hef ég séð aðra þingmenn í gallabuxum og það hefur valdið mér áhyggjum. Það hefur oft truflað einbeitingu mína og það sem verra er, kakíbuxur. Ég hef líka séð fólk í kakíbuxum hérna.“

Þingmaðurinn telur vert að setja niður skýrar reglur hverju þingmenn megi og eigi að klæðast.

„Og, hvort við ættum að taka upp búninga. Mér dettur í hug skikkjur sem ég held að gætu orðið glæsilegar og jafnvel hárkollur.“

Jón lauk svo máli sínu á því að bjóða sjálfan sig sérstaklega fram um að taka þátt í slíkri vinnu ef af yrði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×