Bilbao tapaði með níu stiga mun á útivelli á móti tyrkneska liðinu Tofas, 93-102, og það dugði.
Bilbao vann fyrri leikinn með tólf stigum á Spáni, 84-72, og mátti því tapa með ellefu stigum í kvöld.
FIBA Europe bikarinn er þriðja hæsta Evrópukeppnin í körfunni svona eins og Sambandsdeildin í fótboltanum.
Tryggvi Snær átti fínan leik, skoraði 12 stig, tók 4 fráköst og gaf 2 stoðsendingar á átján mínútum. Hann var framlagshæstur í sínu liði með sautján framlagsstig.
Hann nýtti fjögur af fimm skotum utan af velli og fjögur af fimm vítum en hann var einnig með einn stolinn bolta og eitt varið skot.
Muhammad-Ali Abdur-Rahkman var stigahæstur í Bilbao liðinu með 24 stig en Bandaríkjamaðurinn Marvin Jones skoraði 17 stig.
Undanúrslitin eru einnig tveir leikir, heima og að heiman og verða þeir spilaðir 26. mars og 2. apríl.