Erlent

Úkraína sam­þykkir til­lögu um vopna­hlé

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Frá fundi fulltrúa Úkraínu og Bandaríkjanna í dag.
Frá fundi fulltrúa Úkraínu og Bandaríkjanna í dag. EPA

Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að Úkraínumenn hafi samþykkt tillögu Bandaríkjanna um vopnahlé og séu tilbúnir að ganga til viðræðna um að stöðva átökin og stuðla að langvarandi friði.

Viðræður hafa staðið yfir milli Bandaríkjanna og Úkraínu í Jeddah í Sádi Arabíu síðan í morgun.

Rubio segir að tillagan verði í framhaldinu borin undir Rússa og hann voni að þeir segi já við henni.

„Boltinn er hjá þeim núna,“ sagði Rubio, og ítrekaði að Donald Trump Bandaríkjaforseti vilji að stríðinu fari að ljúka.

Mike Walts, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, segir að rætt verði við fulltrúa Rússlands á næstu dögum. Hann segir að á fundinum hafi verið farið yfir það hvernig væri hægt að binda varanlegan endi á stríðið og hvernig væri hægt að tryggja langvarandi frið.

Fulltrúar Úkraínu sögðu að fundi loknum að þeir hefðu fallist á að hefja friðarviðræður við Rússa, og að 30 daga vopnahlé tæki gildi á næstu dögum.

Hernaðaraðstoð hefst aftur

Fram kom á fundinum að hernaðaraðstoð Bandaríkjanna til Úkraínu myndi hefjast aftur, og Úkraínumenn fengju aftur aðgang að leyniþjónustugögnum Bandaríkjanna.

Bandaríkin settu vopnasendingar til Úkraínu á bið í síðustu viku, og var haft eftir heimildarmönnum að sendingarnar yrðu á bið þar til stjórnvöld í Úkraínu myndu sýna fram á að þau væru raunverulega reiðubúin að ganga til friðarviðræðna.

Andriy Yermak, náinn bandamaður Selenskí, var einn þeirra sem sat fundinn fyrir hönd Úkraínumanna. Hann segir í færslu á X að friður væri lykilatriði. Hagsmunir Kænugarðs væru í fyrirrúmi. Hann þakkaði Bandaríkjamönnum og fulltrúum Sádí Arabíu fyrir „uppbyggilegan fund.“

Skjáskot

Samningur um sjaldgæfa málma ekki ræddur

Rubio segir að samningur um aðgang Bandaríkjanna að sjaldgæfum málmum í Úkraínu hafi ekki verið ræddur á fundinum í dag.

Samningurinn hafi ekki verið á dagskrá fundarins, heldur lausn átakanna.

Þá sagði Rubio að Úkraínumenn væru tilbúnir að stöðva blóðsúthellingarnar og hefja viðræður. Samþykki Rússar ekki vopnahléstillöguna, sé ljóst hverjir það væru sem stæðu í vegi fyrir friði.

Rubio vonar að Rússar taki afstöðu til tillögunnar eins fljótt og auðið er.

Fréttin hefur verið uppfærð

BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×