Skoðun

Af­staða há­skólans

Björn Þorsteinsson skrifar

Þekking og fáfræði hafa tekist á frá örófi alda. Hindurvitni og bábiljur láta ekki kveða sig niður svo auðveldlega, ekki síst þegar ráðamenn sjá sér hag í því að koma þeim í sífellu á kreik að nýju. Og það hefur lengi tíðkast: stórir og smáir kóngar og keisarar fyrri alda hafa alltaf óttast það mest að alþýða manna fengi frið til að móta sér hugmyndir um raunverulega stöðu sína og möguleika í heiminum og samfélaginu.

„Fasisminn nærist ekki síst á því að andstæðingar hans mæta honum í nafni framfara sem sögulegrar reglu.“ Þetta skrifaði þýski gyðingurinn og menningarfræðingurinn Walter Benjamin á fjórða áratug síðustu aldar, landflótta í París. Það sem Benjamin á hér við er að þegar fasismi og önnur skyld óáran veður uppi í samfélaginu þýðir ekkert að syngja samtímanum lof. Þvert á móti þurfum við að horfa gagnrýnum augum á heiminn í kringum okkur og spyrja: hvað er enn ógert, hvar blasir óréttlætið við, hvar eiga horfnar kynslóðir enn tilkall til þess að við bætum samfélagið og hegðun okkar á jörðinni?

Háskólar eru stofnanir þar sem þekkingin á því sem gera þarf myndast og grær – og er miðlað áfram út í samfélagið, gegn öfgum og fáfræði. Þannig taka háskólar alltaf afstöðu gegn hvers kyns sérhagsmunum og síngirni sem að endingu eru ekkert annað en eyðingar- og heimsendaöfl. Þess í stað tekur háskólinn afstöðu með mannkyninu, með lífinu á jörðinni, með plánetunni. Háskóli Íslands er þar engin undantekning og á næstu árum og áratugum mun hann sinna þessu hlutskipti sínu af síauknum þrótti – vegna þess að samfélag okkar kallar á það.

Vorjafndægur eru í vændum. Snjórinn og kuldinn munu að lokum mega sín lítils andspænis rísandi sól og gróandanum. Höldum út og teygum að okkur kalt og frískandi loftið. Tökumst á við verkin sem við blasa með gleði og vorhug, í þeirri fullvissu að sumarið verður gott og haustið fallegt.

Höfundur er prófessor í heimspeki og frambjóðandi í rektorskjöri við Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×