Erlent

Trump úti­lokar ekki sam­drátt í kjöl­far efna­hags­að­gerða sinna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Margir eru uggandi vegna aðgerða Trump í efnahagsmálum, ekki síst eftir að forsetinn lofaði í kosningabaráttunni að lækka kostnað heimilanna frá fyrsta degi.
Margir eru uggandi vegna aðgerða Trump í efnahagsmálum, ekki síst eftir að forsetinn lofaði í kosningabaráttunni að lækka kostnað heimilanna frá fyrsta degi. Getty/Alex Wong

Donald Trump Bandaríkjaforseti útilokaði ekki í viðtali sem birtist á Fox News í gær að Bandaríkjamenn horfðu fram á samdrátt í kjölfar aðgerða hans í efnahagsmálum.

Þá sagðist forsetinn íhuga að hækka enn tolla á vörur frá Kanada og Mexíkó.

Þáttastjórnandinn Maria Bartiromo sagði menn hafa áhyggjur af kólnun í efnahagslífinu og spurði Trump hvort hann ætti von á samdrætti á árinu.

„Mér er illa við að spá um þannig mál,“ svaraði forsetinn. „Það er aðlögunartímabil, af því að það sem við erum að gera er mjög stórt. Við erum að færa auðinn aftur til Bandaríkjanna. Það er stórmál og það er alltaf tímabil... það tekur tíma. Það tekur svolítinn tíma en ég tel það verði frábært fyrir okkur.“

Tollar Trump gagnvart Kanada, Mexíkó og Kína hafa vakið ugg á mörkuðum en ríkin hafa svarað með eigin álögum á vörur frá Bandaríkjunum. Þá hefur stefnuleysi einkennt margar af yfirlýsingum og ákvörðunum Trump, sem felldi aftur niður tolla á ákveðnar vörur fyrir helgi.

Þá hefur forsetinn boðað 25 prósent toll á allt innflutt stál og ál, auk þess sem hann hefur hótað Evrópuríkjunum háum tollum innan tíðar.

Bartiromo vék að því í viðtalinu, sem tekið var upp í síðustu viku, að forystumenn í viðskiptalífinu vildu stöðugleika. Trump sagði að tollar yrðu mögulega hækkaðir en hann ætti síður von á því að þeir myndu lækka aftur.

„Sjáðu til, landið okkar hefur verið rænt í marga áratugi og við ætlum ekki lengur að láta ræna okkur.“

Andstætt við Trump þá sagði viðskiptaráðherrann Howard Lutnick í þættinum Meet the Press í gær að Bandaríkjamenn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af samdrætti. „Ég myndi aldrei veðja á samdrátt,“ sagði hann. „Ekki séns.“

New York Times greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×