Eftir að hafa ekki fengið nein tækifæri framan af leiktíð hefur Þórir Jóhann verið að fá fleiri tækifæri undanfarið og byrjað nær alla leiki ársins. Þar var engin breyting á þegar Lecce tók á móti stóriliði AC Milan í kvöld.
Hvað leik kvöldsins varðar þá var mark dæmt af gestunum frá Mílanó á fyrstu mínútu leiksins og á þeirri 7. tók Lecce forystuna. Svartfellingurinn Nikola Krstović með markið en íslenski miðjumaðurinn Þórir Jóhann Helgason með stoðsendinguna.
Aftur tókst gestunum að koma boltanum í netið en aftur var markið dæmt af og staðan 1-0 í hálfleik. Krstović kom Lecce í 2-0 þegar rétt tæp klukkustund var liðin.
Krstović again! It's two for Lecce! 🤯#LecceMilan 2-0 pic.twitter.com/1fk2bIEVR0
— Lega Serie A (@SerieA_EN) March 8, 2025
Eftir það vöknuðu gestirnir loksins. Á 68. mínútu var staðan orðin 2-1 eftir sjálfsmark heimamanna. Aðeins fimm mínútum síðar var vítaspyrna dæmd og Christian Pulisic jafnaði metin.
Skömmu síðar var Þórir Jóhann tekinn af velli og Pulisic skoraði sigurmark leiksins á 81. mínútu eftir undirbúning Rafael Leão. Ekki urðu mörkin fleiri og lokatölur 2-3 á Stadio Via del Mare-vellinum.
Milan come back from two down to claim victory! 🔴⚫#LecceMilan pic.twitter.com/HtQw3QKU37
— Lega Serie A (@SerieA_EN) March 8, 2025
AC Milan er í 8. sæti með 44 stig , átta minna en Juventus sem situr í 4. sætinu. Lecce er með 25 stig í 16. sæti, þremur fyrir ofan fallsæti.