Innlent

Dæmdur fyrir kylfuárás í Kringlunni

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin var gerð innandyra í Kringlunni í desember 2021.
Árásin var gerð innandyra í Kringlunni í desember 2021. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt mann í sex mánaða fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás inni í Kringlunni í Reykjavík í desember 2021.

Í ákæru kom fram að maðurinn hafi laugardaginn 11. desember 2021 veist að manninum og slegið hann endurtekið í höfuð og búk með kylfu. Við það féll brotaþolinn í gólfið og hélt hann þá árásinni áfram. Fórnarlamb árásarinnar hlaut áverka á höfði og framhandlegg, auk mars á brjóstkassa, höndum og úlnlið.

Maðurinn játaði skýlaust brot sín og var það metið til refsilækkunar, auk þess dráttar sem varð við meðferð málsins. Til þyngingar horfði dómari hins vegar til þess að líkamsárásin var alvarleg þar sem ákærði beitti hættulegu vopni á líkama og höfuð brotaþola.

Dómurinn mat hæfilega refsingu vera sex mánaða fangelsi en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að tveimur árum liðnum, haldi hann almennt skilorð.

Farið var fram á rúmlega 1,2 milljóna króna í miskabætur en dómari mat hæfilegar bætur 700 þúsund krónur.

Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða um 600 þúsund krónur í málsvarnarþóknun til skipaðs verjanda og annan sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×