Erlent

Tollaákvarðanir Trump tóku gildi á mið­nætti og Kína svarar fyrir sig

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vörugámar á leið úr landi í Hangzhou í Kína.
Vörugámar á leið úr landi í Hangzhou í Kína. Getty/NurPhoto/Costfoto

Tollaákvarðanir Donald Trump Bandaríkjaforseta gagnvart Kína, Mexíkó og Kanada tóku gildi á miðnætti en um er að ræða 25 prósent innflutningstoll á vörur frá Mexíkó og Kanada og tíu prósent toll á vörur frá Kína.

Kínverjar hafa þegar gripið til gagnaðgerða og tilkynnt að fimmtán prósent tollur verði lagður á kjúkling, hveiti, maís og bómull frá Bandaríkjunum og tíu prósent tollur á svína- og nautakjöt, ávexti, grænmeti, mjólkurvörur og fleira.

Búist er við viðbrögðum frá Mexíkó síðar í dag en Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir að stjórnvöld þar í landi muni bregðast við með 25 prósent tollum á fjölda vara til að byrja með og að þeir verði lagðir á enn fleiri vörur ef tollar Bandaríkjamanna verða enn í gildi eftir 21 dag.

Ákvarðanir Trump munu bæði hafa áhrif á diplómatísk samskipti við viðkomandi ríki en einnig koma niður á neytendum og framleiðendum í Bandaríkjunum með hækkandi vöruverði.

Til viðbótar við hærri tolla greindu stjórnvöld í Kína frá því að þau hefðu bannað ákveðnum bandarískum fyrirtækjum að eiga í viðskiptum við Kína. Þá greinir New York Times frá því að Kínverjar muni í auknum mæli horfa til Evrópu og freista þess að styrkja viðskiptatengsl við Evrópuríkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×