Erlent

Engin friðar­gæsla án að­stoðar frá Banda­ríkja­mönnum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Starmer er kominn til Washington og ávarpaði viðstadda í sendiherrabústaðnum.
Starmer er kominn til Washington og ávarpaði viðstadda í sendiherrabústaðnum. AP/Carl Court

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, er kominn til Washington D.C. í Bandaríkjunum, þar sem hann mun funda með Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Guardian segir að þess sé að vænta að Starmer freisti þess að afla stuðnings Trump við friðargæsluliða Bretlands og Frakklands í Úkraínu, ef til þess kemur að samningar nást um endalok átaka þar í landi.

Trump sagði á ríkisstjórnarfundi í gær að Bandaríkjamenn myndu ekki veita Úkraínumönnum neins konar öryggistryggingar; það væri undir Evrópuríkjunum að gera það. Starmer hefur hins vegar sagt að evrópskir friðargæsluliðar þyrftu að njóta ýmis konar stuðnings frá Bandaríkjunum, meðal annars hvað varðar loftvarnir.

„Öryggistryggingarnar verða að vera þannig að þær hindri [Vladimir Pútín Rússlandsforseta] frá því að snúa aftur,“ sagði Starmer við fjölmiðla á leiðinni yfir Atlantshafið. „Því áhyggjur mínar eru þær að án fælingar sé þetta bara tækifæri fyrir hann að bíða og koma svo aftur, því fyrirætlanir hans varðandi Úkraínu eru öllum ljósar,“ sagði forsætisráðherrann.

Hann sagði ákvörðun stjórnvalda um að senda friðargæsluliða til Úkraínu ekki vera tekna af léttúð og að enn væri unnið að því að skoða mögulegar útfærslur.

Stjórnvöld í Moskvu hafa hafnað hugmyndinni um evrópska friðargæsluliða, eftir að Trump hélt því fram að hann hefði rætt málið við Pútín og hann tekið vel í það.

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti er væntanlegur til Washington á morgun, þar sem til stendur að ræða og mögulega undirrita samkomulag við Bandaríkjamenn um vinnslu auðlinda í Úkraínu. Selenskí segist þó ekki munu ganga að neinu samkomulagi fyrr en samkomulag hefur náðst um öryggistryggingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×