Fyrir þá örfáu sem ekki þekkja til sinnir Læknavaktin veiku fólki utan opnunartíma heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu til tíu á kvöldin á virkum dögum og um helgar. Alla jafna er álagið mikið og vel þekkt að fólk bíði fleiri klukkutíma eftir því að komast að. Fjölmargar fréttir hafa verið skrifaðar af álaginu undanfarin ár.
Þegar blaðamaður gekk inn á Læknavaktina þegar klukkan var tuttugu mínútur genginn í níu með syni sínum mátti sjá númerið A152 á neðri hæðinni. Á efri hæðinni fær maður miða eftir að hafa tékkað sig inn. Númerið var A153. Það var enginn á biðstofunni, ekki fáir eða nánast enginn heldur bókstaflega enginn ef frá er talin brosmild kona í afgreiðslunni.

Til að gera langa sögu stutta hittu feðgarnir ljómandi fínan lækni og hjúkrunarfræðing og voru farnir út líklega fimmtán mínútum síðar. Læknirinn hafði á orði að það væri búið að vera gríðarlega mikið að gera undanfarna daga og óvænt hve lítið væri að gera í kvöld. En líklega væri um að ræða logn á undan storminum.
Þegar feðgarnir gengu út af Læknavaktinni var biðstofan enn tóm. Læknavaktin er opin frá 17-22 á virkum dögum en frá 9-22 um helgar.