Körfubolti

Agravanis bræður ætla með Ís­lands­meistara­titilinn í Síkið

Aron Guðmundsson skrifar
Agravanis bræðurnir leiða saman hesta sína í liði Tindastóls það sem eftir lifir tímabils
Agravanis bræðurnir leiða saman hesta sína í liði Tindastóls það sem eftir lifir tímabils Vísir/Samsett mynd

Mikil spenna ríkir fyrir frum­raun Dimitrios Agravanis með topp­liði Tindastóls í Bónus deild karla í körfu­bolta. Feril­skrá hans ber þess merki að um gæða­leik­mann sé að ræða og á Sauðárkróki hittir hann fyrir litla bróður sinn.

Það ráku margir upp stór augu þegar að Tindastóll greindi frá komu Dimitrios Agravanis. Þar á ferð er leik­maður sem hefur átt afar farsælan feril hingað til og er enn á besta aldri, 30 ára gamall. Dimitrios hefur verið liðs­maður í gríska lands­liðinu, spilað þar með einum besta leik­manni í heimi, Giannis Antet­okounmpo leik­manni NBA liðs Milwaukee Bucks, og þá hefur hann verið á mála hjá stór­liðum á borð við Olympiacos, Pan­at­hinai­kos og AEK Aþenu í heima­landinu.

Liðfélagi Agravanis bræðra í gríska landsliðinu er einn besti körfuboltamaður heimsVísir/Getty

Dimitrios er tvöfaldur grískur meistari og var valinn í úr­vals­lið deildarinnar árið 2022. Hjá Tindastól hittir hann fyrir yngri bróður sinn Giannis sem hefur látið til sín taka á Sauðárkróki en bræðurnir ræddu við Ágúst Orra Arnar­son eftir sigur gegn Stjörnunni í Bónus deild kvenna á dögunum.

„Ég er mjög spenntur og glaður yfir því að fá tækifæri til þess að spila aftur með litla bróður mínum. Hann sagði mér frá Tindastóls liðinu, hvað allt væri gott hér sem og mark­miðum liðsins sem snýr að því að verða Ís­lands­meistarar. Ég var án samnings og er ánægður með að geta komið hingað, hjálpað liðinu að ná mark­miði sínu,“ segir Dimitrios sem kemur hingað í topp­standi.

„Síðustu átta mánuði hef ég verið 100% heill eftir að hafa áður glímt við meiðsli og vil nú halda áfram með minn feril. Þar sem um­hverfið er gott og mér sýnd virðing, þar vil ég spila. Leikurinn er sá sami alls staðar og ég vil fara og vinna leiki.“

Munum sjá inn á vellinum hvor er betri bróðirinn

Og yngri bróðirinn Giannis er himin­lifandi með það að fá bróður sinn hingað til lands. Þeir hafa áður spilað saman með gríska lands­liðinu en einnig með liði Promit­heas Pat­ras í heima­landinu.

„Það er draumi líkast að fá tækifæri til þess að spila aftur saman. Við höfum reynslu af því frá fyrri tíð. Mjög ánægju­legt.“

En hvor bróðirinn er betri leik­maður?

„Þið munuð sjá það inn á vellinum,“ segir sá yngri, Giannis, fljótt. „Við erum báðir í góðu formi og verðum að sanna það inn á vellinum. Reyna að ná inn eins mörgum sigur­leikjum og við getum.

Margir eru á því Dimitrios að þú komir inn og verðir besti leik­maður deildarinnar. Verður það raunin?

„Ég horfi ekki á þetta þannig. Ég veit að ég er í frábæru formi og ætla að reyna hjálpa liðinu. Þannig hugsa ég hvert sem ég fer og þannig er mitt hugar­far hér. Ef ég næ að gera það og við vinnum titilinn, þá verð ég glaður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×