Innlent

Byssu­maður farinn af vett­vangi þegar lög­reglan kom

Jón Þór Stefánsson skrifar
Lögreglan fann ekki mann með skammbyssu þrátt fyrir leit.
Lögreglan fann ekki mann með skammbyssu þrátt fyrir leit. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni var tilkynnt um mann sem var að meðhöndla skammbyssu á almannafæri í hverfi 108 í Reykjavík í gærkvöld eða nótt.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en þar segir að lögreglan hafi verið með töluverðan viðbúnað vegna málsins, líkt og alltaf þegar tilkynningar sem þessar berist. Maðurinn var þó farinn af vettvangi þegar lögregla kom á vettvang og fannst hann ekki þrátt fyrir leit.

Að sögn lögreglu er málið í rannsókn.


Veistu meira um málið? Áttu myndir af vettvangi? Sendu okkur á ritstjorn@visir.is.


Í dagbókinni er einnig greint frá fjögurra bíla árekstri við Miklubraut. Engin teljandi slys urðu á fólki, en allir bílarnir voru óökuhæfir eftir áreksturinn og voru fjarlægðir með dráttarbílum.

Í miðbænum var tilkynnt um ölvaðan ferðamann sem þótti gera sig líklegan til slagsmála við dyraverði á öldurhúsi. Þegar lögregla kom á vettvang hafði allt róast og ferðamaðurinn gekk sína leið, segir í dagbókinni.

Þá var tilkynnt um einstakling sem hafði ráðist á tvo og skemmt heyrnartól annars þeirra. Sá var handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem meint fíkniefni fundust í fórum hans. Hann var vistaður í þágu rannsóknar málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×