Erlent

Ræddu í 45 mínútur um Græn­land og dönsk fyrir­tæki

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Menn hafa töluverðar áhyggjur af því að Trump sé full alvara í því að „eignast“ Grænland.
Menn hafa töluverðar áhyggjur af því að Trump sé full alvara í því að „eignast“ Grænland. Getty

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, ræddi við Donald Trump, fyrrverandi og verðandi forseta Bandaríkjanna, í 45 mínútur á miðvikudag og sagði meðal annars að framtíð Grænlands væri í höndum Grænlendinga.

Trump hefur valdið miklu fjaðrafoki í Danmörku, á Grænlandi og raunar víðar með yfirlýsingum um að hann vilji kaupa Grænland og það sé nauðsynlegt fyrir Bandaríkin að ná þar yfirráðum.

Skýrendur í Danmörku segja lengd símtalsins milli Frederiksen og Trump gefa til kynna að ekki sé aðeins um innihaldslaust orðagjálfur að ræða.

Frederiksen er sögð hafa tjáð Trump að Danir séu reiðubúnir til að axla aukna ábyrgð í öryggismálum á norðurslóðum. Þá ítrekaði hún yfirlýsingar forsætisráðherra Grænlands, Mute Egede, að Grænland væri ekki til sölu.

Grænlendingar hafa gefið til kynna að þeir hyggist ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði á næstu misserum og stjórnvöld í Danmörku sagst munu virða niðurstöðuna.

Egede hefur sagt að yfirvöld á Grænlandi séu reiðubúin til að eiga samtal við stjórnvöld vestanhafs en Frederiksen hefur verið gagnrýnd heima fyrir vegna yfirlýsinga um að framtíð Grænlands sé alfarið í höndum Grænlendinga, líkt og Danir eigi engra hagsmuna að gæta.

Frederiksen er einnig sögð hafa rætt við Trump um framlag danskra fyrirtækja til efnahgsmála í Bandaríkjunum en fyrirtækin eru sögð nokkuð uggandi eftir að Trump hótaði aukinni skattlagningu ef Danir létu Grænland ekki af hendi.

Forsætisráðherrann hugðist funda með forsvarsmönnum nokkurra stórfyrirtækja í gær, meðal annars bjórrisans Carlsberg og Novo Nordisk, framleiðanda þyngdarstjórnunarlyfja sem njóta gríðarlegra vinsælda í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×