Fótbolti

Þrettánda jafn­teflið hjá Juventus

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mateo Retegui jafnar hér metin og sá til þess að Juventus gerði enn eitt jafnteflið.
Mateo Retegui jafnar hér metin og sá til þess að Juventus gerði enn eitt jafnteflið. Timothy Rogers/Getty Images

Juventus er enn án taps í Serie A, efstu deild ítalska fótboltans, en lærisveinar Thiago Motta hafa hins vegar nú gert 13 jafntefli í aðeins 20 leikjum.

Juventus sótti Atalanta heim og mátti búast við hörkuleik. Bæði lið hafa spilað vel til þessa á leiktíðinni og því kom ef til vill ekki á óvart að leiknum hafi lokið með 1-1 jafntefli.

Pierre Kalulu kom Juventus yfir á 54. mínútu en Mateo Retegui jafnaði metin á 78. mínútu og þar við sat. Þetta var þriðja jafntefli Atalanta í röð og það 13. hjá Juventus á leiktíðinni.

Í hinum leik kvöldsins í Serie A kom AC Milan til baka gegn Como á útivelli, lokatölur 1-2. Hinn 19 ára gamli Assane Diao kom Como yfir í síðari hálfleik en Theo Hernandez jafnaði metin og Rafael Leão tryggði stigin þrjú með marki þegar tæplega stundarfjórðungur var til leiksloka.

Atalanta er nú í 3. sæti með 43 stig, fjórum á eftir toppliði Napoli. Juventus er í 5. sæti með 34 stig, AC Milan er í 7. sæti með 31 stig og Como er í 16. sæti með 19 stig, einu frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×