Upp­gjörið: Haukar - Valur 87-67 | Engin vand­ræði á topp­liðinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Diamond Alexis Battles átti virkilega góðan leik.
Diamond Alexis Battles átti virkilega góðan leik. Vísir/Diego

Haukar hafa nú unnið fimm leiki í röð og eru í góðum málum á toppi Bónsu-deildar kvenna í körfubolta. Liðið átti ekki í neinum vandræðum með gesti sína frá Hlíðarenda í kvöld.

Liðin hófu leikinn á að setja sitthvora tvo þristana á fyrstu mínútunum og virtust sjóðandi heit bæði tvö. Síðan tóku Haukar yfir. Þær náðu fyrst sjö stiga áhlaupi og bættu bara í eftir því sem leið á annan leikhlutann. Valskonur voru í miklum vandræðum sóknarlega og töpuðu mörgum boltum.

Eftir fyrsta leikhlutann var staðan 30-13 og þó svo að sóknarleikur Valskvenna hafi lagast í öðrum leikhluta var sóknarleikur Hauka einfaldlega of góður til að Valsarar gætu eitthvað minnkað muninn. Staðan í hálfleik 53-29 og Haukar með yfirburði.

Svipað var uppi á teningunum í síðari hálfleik. Valur átti sín augnablik en þetta Haukalið er einfaldlega með of marga góða leikmenn til að missa svona mun niður. Hann varð mestur tuttugu og sex stig og voru úrslitin ljós löngu áður en flautað var til leiksloka.

Lokatölur 89-73 og Haukar því áfram með þægilega forystu á toppi deildarinnar en Valskonur eru í pakkanum fyrir neðan miðja deild.

Atvik leiksins

Það er erfitt að tína út eitt atvik úr leik sem þessum. Eðlilegast væri að tala um augnablikið þegar Guðbjörg Sverrisdóttir gekk inn á völlinn því þá jafnaði hún leikjamet Sigrúnar Ámundadóttur í efstu deild en Guðbjörg var að leika leik númer 382 í kvöld. Hún mun líklega slá metið í næsta leik sem er mikið afrek en Guðbjörg hefur unnið fimm Íslandsmeistaratitla á sínum ferli, þrjá með Val og tvo með Haukum.

Stjörnur og skúrkar

Lore Devos og Tinna Guðrún Alexandersdóttir áttu báðan mjög góðan leik fyrir Hauka. Devos skilar alltaf sínu og er gríðarlega öflugur leikmaður. Tinna Guðrún hitti vel og var sömuleiðis dugleg að finna samherja sína með góðum stoðsendingum.

Hjá Val var Alyssa Cerino best en Jiselle Thomas þarf að skila betri leik heilt yfir þó svo að hún hafi aðeins bætt sig eftir því sem leið á. Valsliðið tapaði alltof mörgum boltum og spurning hvort þjálfarinn Jamil Abiad hafi ekki verið búinn að teikna upp réttu lausnirnar fyrir sínar konur.

Dómarar leiksins

Þetta var ekki erfiðasti leikurinn að dæma en þeir Bjarki Már Davíðsson, Sigurbaldur Frímannsson og Birgir Örn Hjörvarsson komust vel frá sínu.

Stemmning og umgjörð

Umgjörðin hjá Haukum í Ólafssal er alltaf til fyrirmyndar. Það var ágætlega mætt á leikinn en vonandi fjölgar í stúkum liðanna eftir því sem leikirnir í deildinni verða stærri með vorinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira