Innlent

Við­ræður í kjara­deilu kennara sigldu í strand

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjar segir enn bera talsvert mikið á milli aðila kjaradeilunnar.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjar segir enn bera talsvert mikið á milli aðila kjaradeilunnar. Vísir/Vilhelm

Enn er langt á milli aðila í kjaradeilu kennara við ríki og sveitarfélög hjá ríkissáttasemjara og var tekið ótímabundið hlé í viðræðunum í gær. Verkföll hefjast 1. febrúar náist ekki að semja fyrir það.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Rúv í gærkvöldi.

„Sá fundur fór þannig að ég ákvað, að höfðu samráði við aðila, í kjölfar þess fundar að ég mun ekki boða til frekari funda að svo stöddu,“ sagði Ástráður Haraldsson, ríkissáttasemjari, í viðtalinu við Rúv í gær. 

Það sé gerst vegna þess að viðræðurnar hafi ekki skilað tilætluðum árangri.

„Við þessar aðstæður telja aðilarnir að það sé skynsamlegast að tekið verði smá hlé á viðræðunum og á næstu sólarhringum þá munu aðilarnir, hver í sínu lagi og í samráði við mig, vinna að því að kanna hvort hægt sé að finna einhvern nýjan grundvöll eða blása lífi í viðræðurnar á einhvern nýjan hátt,“ sagði hann einnig við Rúv.

Viðræðurnar hefðu því siglt í strand, „að minnsta kosti í bili,“ að sögn Ástráðs.

Bæri enn „talsvert mikið í milli“

Ástráður sagðist ekki geta sagt til um hvað þetta hlé í viðræðum yrði langt. 

„Það fer bara alveg eftir því hvernig okkur gengur að finna samtalinu einhvern nýjan grundvöll. En það er þannig að það er umsamin friðarskylda milli aðilanna sem stendur til næstu mánaðamóta og þess vegna hefði verið mjög mikilvægt að reyna að ljúka málum í þessum mánuði,“ sagði Ástráður inntur eftir því hvenær viðræður hæfust að nýju.

Loks sagði hann að það bæri enn talsvert mikið í milli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×