Kristrún Frostadóttir lagði til á þingflokksfundi Samfylkingarinnar í gær að Guðmundur Ari yrði formaður, auk þess sem Arna Lára Jónsdóttir yrði varaformaður og Kristján Þórður Snæbjarnarson ritari þingflokks. Tillögurnar voru einróma samþykktar.
Fer til annarra verkefna
Í samtali við Morgunblaðið segir Dagur, sem hafði ítrekað verið nefndur sem mögulegur þingflokksformaður, að hann hafi verið tilbúinn til að takast á við það verkefni.
„Ekki spurning um það, og gerði alveg ráð fyrir því. Þannig að ég fer til annara verkefna,“ hefur Mogginn eftir Degi.
Þar nefnir hann þó ekki hvaða verkefni er um að ræða, en enn á eftir að raða niður í nefndir þingsins, bæði almennum nefndarmönnum en einnig formönnum.
Formaðurinn segir samstöðu í þingflokknum
Það fór hátt í kosningabaráttunni þegar Kristrún fullvissaði mögulegan kjósanda flokksins, sem var ósáttur við að Dagur væri í þingframboði, um að Dagur væri „aukaleikari“ og yrði ekki ráðherra. Nú er ljóst að hann fær ekki heldur ábyrgðarstöðu í stjórn þingflokksins.
Fréttastofa ræddi við Guðmund Ara í gær, eftir að ljóst varð að hann yrði þingflokksformaður. Þá var hann meðal annars spurður hvernig Dagur hefði tekið þeim tíðindum. Guðmundur Ari svaraði því til að mikil samstaða hafi verið innan þingflokksins.
„Og engin önnur tillaga sem barst á fundinum eða neitt svoleiðis. Þannig að það er bara mikil samstaða í þingflokknum,“ sagði Guðmundur Ari í gær.
Fréttastofa hefur ekki náð í Dag nú í morgun.