Innlent

Götulokanir á Akur­eyri vegna til­færslu sprengjunnar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Björg EA hefur fengið sprengju í veiðarfæri tvisvar á rúmu ári.
Björg EA hefur fengið sprengju í veiðarfæri tvisvar á rúmu ári. samherji

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur ráðist í götulokanir við Hjalteyrargötu og Fiskitanga á Akureyri vegna tilfærslu sprengju sem togarinn Björg EA kom með til hafnar við athafnasvæði Útgerðarfélags Akureyrar í dag.

Fiskiskipið fékk tundurdufl í veiðfarfæri í dag, að öllum líkindum svonefnda djúpsprengju frá síðari heimstyrjöld. Séraðgerðarsveit Landhelgisgæslunnar kom að aðgerðum og rýmdi athafnasvæði útgerðarfélagsins.

Lögreglan sendi frá sér tilkynningu vegna sprengjunnar fyrir stuttu. Þar segir að til standi að flytja hana til austurs á hafnarsvæðinu. 

„Meðan það er gert mun lögregla stækka lokunarsvæðið og mun stöðva m.a. umferð um Hjalteyrargötu milli Hagkaups og Silfurtanga (við húsnæði björgunarsveitarinnar). Þá verður lokað fyrir umferð um Fiskitanga.“

Búast má við að þessar götulokanir geti staðið í um 20-30 mínútur, að því er fram kemur í tilkynningu lögreglunnar.

Kári Erlingsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri sagði í samtali við fréttastofu í dag bryggjusvæðið hafi verið lokað í öryggisskyni og að starfsemi í frystihúsi hafi verið stöðvuð vegna þess.

Þetta er annað skiptið á rétt rúmu árið sem Björg EA fær sprengju í veiðarfæri. Brot úr breskri sprengju úr síðari heimsstyrjöldinni kom í trollið utan við Melrakkasléttu 3. janúar í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×