Atvinnulíf

„Þá hugsuðu menn: Fínt, fáum konurnar í þessi störf“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það er af sem áður var að fólki datt varla í hug að vinna hjá hinu opinbera segir Baldur Gísli Jónsson yfirmaður mannauðsráðgjafar Intellecta. Nú horfa málin hins vegar öðruvísi við enda fylgja þessum störfum ýmiss fríðindi, hið opinbera er komið lengra en einkageirinn í styttingu vinnuvikunnar og fleira.
Það er af sem áður var að fólki datt varla í hug að vinna hjá hinu opinbera segir Baldur Gísli Jónsson yfirmaður mannauðsráðgjafar Intellecta. Nú horfa málin hins vegar öðruvísi við enda fylgja þessum störfum ýmiss fríðindi, hið opinbera er komið lengra en einkageirinn í styttingu vinnuvikunnar og fleira. Vísir/Vilhelm

„Þegar ég kom inn á vinnumarkaðinn fyrst hvarflaði það ekki að mörgu fólki um þrítugt að fara að vinna hjá hinu opinbera, það þótti svolítið vera eins og að setjast í „helgan stein,“ segir Baldur Gísli Jónsson yfirmaður mannauðsráðgjafar Intellecta.

„Tuttugu og fimm árum síðar fylgist maður með fólki, jafnvel búið að byggja upp flottan starfsframa og feril, sækjast í sérfræði- og stjórnunarstörf hjá hinu opinbera. Launamunurinn hefur minnkað þótt launin séu almennt hærri í einkageiranum, er starfsöryggið mun meira og ýmis fríðindi sem fylgja,“ segir Baldur og bætir við:

„Stytting vinnuvikunnar er líka mun lengra komin hjá hinu opinbera í samanburði við einkageirann. Og það er af sem áður var að fólk sé tilbúið til að vinna langa vinnudaga. Æ fleiri horfa til „eðlilegra“ vinnudaga sem nema 7-8 klukkustundum á dag og finnst það nóg. Þetta viðhorf er sérstaklega áberandi hjá yngra fólki. Þetta er auðvitað að mörgu leyti jákvæð þróun en á sama tíma eru víða stjórnendur sem horfa enn á viðveru sem merki um vinnuframlag starfsfólks.“

Í dag og á morgun ætlar Atvinnulífið að rýna aðeins í mannauðsmálin og vinnumarkaðinn.

Nýir þingmenn og fjöldauppsagnir

Baldur er með B.A. og M.A. gráðu í sálfræði og MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Baldur var mannauðsstjóri Landsbankans í tólf ár, veitti stjórnendum þar ráðgjöf og leiddi sjálfbærniteymi bankans. Þá starfaði Baldur sem mannauðsstjóri hjúkrunarheimila Sóltúns, þar sem hann leiddi breytingaferli fyrirtækisins.

Við byrjum samtalið um mannauðs- og starfsframamálin á því að tala um nýafstaðnar kosningar.

Því mörgum nýjum þingmönnum fylgir að losnar um ný störf. Eða hvað?

„Jú vissulega losnar eitthvað um störf og þegar það gerist fylgir því ákveðin keðjuverkun því nýtt fólk þarf í þau störf og svo framvegis,“ segir Baldur og bætir við:

En ef við horfum á stóru myndina þá hafa þessi störf ekki mikil áhrif á framboð starfa, það eru til að mynda um 600 störf í auglýsingu hjá alfred.is núna. 

Það eru rúmlega 30 nýir þingmenn og kannski um 20 störf sem þarf að ráða í. 

Það er eftirtektarvert að margir nýir þingmenn eru að koma úr störfum hjá ríki, sveitarfélögum eða stéttarfélögum.

Nokkuð hefur verið um fréttir nýlega af fjöldauppsögnum. Hvernig blasa atvinnumálin almennt við þér?

„Almennt er atvinnumarkaðurinn mjög líflegur, mörg tækifæri í takt við miklar breytingar á markaðnum. En fjöldauppsögnum fylgja oft ákveðin skammtímaáhrif á vinnumarkaðinn sem getur virkað sem stífla, eða eins og tækifærum fækki því önnur fyrirtæki vilja ráða til sín fólkið sem lenti í hópuppsögn.

„Fjöldauppsagnir og atvinnuleit fyrir fólk í kjölfar þeirra getur verið afar ólík. Sumar fjöldauppsagnir eru sérfræðistörf hjá fyrirtækjum eins og Controlant, þar sem eftirspurn er eftir sérfræðingum á þeirra sviði og því oft ekki erfitt fyrir fólk að fá nýja vinnu. Það getur verið aðeins erfiðara þegar fjöldauppsagnir eiga við fólk í almennari störfum og enn erfiðara ef fólk hefur verið í svo sérhæfðum störfum að mjög fá fyrirtæki sækist eftir slíkri sérfræðiþekkingu.“

Að þessu sögðu segir Baldur fleira teljast til þegar fjöldauppsagnir eru.

„Það er að vissu leyti aðeins mildara högg að vera hluti af fjöldauppsögn því það gerir málin ekki eins persónuleg. Uppsögn er samt alltaf ákveðið áfall fyrir fólk og þótt um fjöldauppsagnir sé að ræða, er algengt og eðlilegt að fólk fari samt í gegnum tilfinningar og vangaveltur eins og til dæmis Af hverju ég? .“

Baldur segir það eftirtektarvert að margir nýir þingmenn eru að koma úr störfum hjá ríki, sveitarfélögum eða stéttarfélögum. Brotthvarf þeirra af vinnumarkaði muni þó hafa lítil keðjuverkandi áhrif, nýir þingmenn telji rúmlega 30 og mögulega þýði það að ráða þurfi í 20 störf.Vísir/Vilhelm

Hvar eru karlarnir?

Baldur hefur starfað í mannauðsmálum í um aldafjórðung. Sem verður að teljast nokkuð merkilegt því í mannauðsmálunum hallar mjög mikið á karlmenn; mun fleiri konur mennta sig í mannauðsmálum og mun fleiri konur en karlar starfa í mannauðsmálum.

Hvers vegna eru svona fáir karlmenn í mannauðsmálunum?

„Já þetta er einmitt þúsund dollara spurningin,“ segir Baldur og brosir.

En heilt yfir telur hann skýringuna reyndar vera part af því hversu lítið er búið að gerast í jafnréttismálunum síðustu 20-30 árin.

„Það hefur ótrúlega mikið gerst í mannauðsmálum síðustu áratugina. Mikil þekking sem hefur bæst við og mikill fjöldi fólks sem starfar nú í þessum málum og það er jákvætt,“ segir Baldur og bætir við:

„Í byrjun voru karlmennirnir þó fleiri. Voru titlaðir starfsmannastjórar, sáu um launagreiðslur, réttindamál og fleira. Voru rekstrarstörf sem þýðir að þetta voru þá frekar karlar en konur.“

Enn er staðan sú að karlmenn ráða oftar yfir rekstrum fyrirtækja sem æðstu stjórnendur, eru ríkjandi í fjármálastjórn og svo framvegis.

Síðan var farið að tala fyrir því að það þyrfti að jafna kynjahlutföllin og í byrjun var sérstaklega horft til markaðsmálanna þar sem menn hugsuðu:

Ókei, við skulum þá ráða fleiri konur sem markaðsstjóra og jafna hlutföllin aðeins þannig.“

Þróunin hélt síðan aðeins áfram. Lögum var breytt þannig að fleiri konur settust í stjórn og enn jókst á þrýstinginn um að jafna kynjahlutföllin innan stjórnendahópa.

Starfsmannastjórastörfin voru um sama leyti að þróast yfir í mannauðsmálin og þau fræði sem kennd eru í mannauðsmálum. 

Og þá hugsuðu menn: 

Fínt, fáum konurnar í þessi störf.

Auðvitað er þetta einfölduð mynd af flóknara samspili ýmissa þátta, en svona birtist þetta út á við.“

Það sem þó vantar er breytingin sjálf.

„Það hefur strangt til tekið lítið sem ekkert breyst í kynjahlutföllum í stjórnendastörfunum, vissulega hafa margar konur tekist á við krefjandi stjórnunarstörf, en þær eru samt heilt yfir ennþá í minnihluta.. Þar eru karlar enn æðstu stjórnendur og stýra peningunum. En konurnar að koma inn í önnur mál, þar á meðal mannauðsmálin.“

Inngrip um jafna kynjaskiptingu í stjórnum hafði jákvæð áhrif en ýtti lítið við kynjajafnrétti út fyrir stjórnarherbergin. Það sama segir Baldur vera með jafnlaunavottunina.

„Vissulega á hún að tryggja ákveðið jafnræði kynja í sambærilegum störfum. Hún hefur hjálpað sumum fyrirtækjum á ná betri tökum á jöfnum launum innan fyrirtækis, en þetta nær ekki lengra. Jafnlaunavottunin er ekki að hafa nokkur áhrif á þá þróun hvaða störf eru ríkjandi karlastörf og að karlastörfin eru metin ábyrðarmeiri og launahærri. Jafnréttismálin eru að þokast í rétta átt, en þau hreyfast mjög hægt,“ segir Baldur og bætir vði:

„Að fáir menn séu í mannauðsmálum tel ég því upphaflega vera hluta af gamalli arfleifð.“ En svo breytist það ekki nema fleiri karlar mennti sig í þessa átt. Þetta er kannski spurning um eggið og hænuna?“

Baldur telur skýringuna á því hversu fáir karlmenn starfa í mannauðsmálum hluta af arfleifð gamalla tíma. Lítið hafi í raun breyst í jafnréttismálunum því til að auka hlut kvenna, hafi atvinnulífið meira og minna fundið leiðir framhjá hefðbundnu karlastörfunum heldur fjölgað konum í ný störf eins og mannauðs- eða markaðsmál.Vísir/Vilhelm

Góðu ráðin og árið 2025

Baldur er nokkuð bjartsýnn á að árið 2025 verði gott með tilliti til mannauðsmála.

„Mörg fyrirtæki eru með stórar mannauðsdeildir sem eru öflugar og sjálfbærar. Þau fyrirtæki sem við horfum til varðandi mannauðsráðgjöfina okkar hjá Intellecta eru hins vegar fyrirtækin sem eru annað hvort með einn eða engan mannauðstjóra eða jafnvel að mannauðsmálin eru á könnu forstjórans sjálfs,“ segir Baldur og tekur dæmi um hvernig flest fyrirtæki eru þó farin að huga betur að mannauðsmálunum.

„Tökum sem dæmi uppsagnir. Þar er orðið algengara í dag að fyrirtæki leita til utanaðkomandi aðila eins og okkar því fyrirtæki vilja gera þetta vel,“ segir Baldur og nefnir dæmi:

„Til dæmis eru fleiri fyrirtæki farin að fylgja eftir fólki í kjölfar uppsagna. Bæði að bjóða aðstoð varðandi atvinnuleit, fólk þarf oft þjálfun og æfingu í því að leita sér að vinnu, fara í atvinnuviðtöl og koma sér á framfæri“ en líka aðstoð við að takast á við það áfall sem uppsögn felur í sér. Þetta getur verið til dæmis viðtal hjá sálfræðingi eða öðrum fagaðila.

Baldur segir fyrirtæki ekki eiga að horfa í þann kostnað sem þessu ferli fylgir.

„Því það getur skipt sköpum hvernig uppsögnin tekst til og hvaða umfjöllun fyrirtækið fær sem vinnustaður í kjölfarið. Ef vel er að uppsögnum staðið, skilar það sér betur í góðu orðspori.“

Annað sem Baldur segir koma inn á borð hjá Intellecta er aðkoma að málum sem hlutlaus utanaðkomandi aðili

„Segjum til dæmis samskiptavandi tveggja lykilstarfsmanna. Þá er oft gott að leita til utanaðkomandi aðila sem eru ekki tengdir einu né neinu innanhús og geta því komið öðruvísi og óháðari að borði.“

Baldur segir ýmiss verkefni þó af öðrum toga.

„Til dæmis aðkoma til þess að ræða og spegla hugmyndir sem stjórnendur hafa um einhverjar breytingar eða koma að skipulagi og undirbúa ný verkefni. Þetta er mjög fjölbreytt.“

Aðspurður um mannaðmálin og vinnumarkaðinn á nýju ári segir Baldur.

„Árið verður spennandi, lækkandi vextir koma atvinnulífinu alltaf vel. Fyrirtæki eru að verða meira meðvituð um mikilvægi vellíðunar og heilbrigði starfsfólks, geðheilbrigði þar með talið sem var orð ársins 2024 hjá mannauðsfólki. Við erum alltaf að hlúa betur að starfsfólki svo það geti skilað sínu besta vinnuframlagi sem skilar sér í öflugri fyrirtækjum.“

-


Tengdar fréttir

„Ég spyr: Er í lagi að grípa í rass og þukla á brjóstum?“

„Við héldum málþing um þessi samskipti vinnuveitenda við stéttarfélögin því sú staða kemur reglulega upp að velta má fyrir sér; Hvor rétturinn er mikilvægari, vinnurétturinn eða vinnuverndin?“ segir Adriana Karolina Pétursdóttir formaður Mannauðs, samtaka mannauðsfólks á Íslandi.

„Breytingaskeið kvenna hefur líka áhrif á karlavinnustaði“

„Breytingaskeið kvenna hefur líka áhrif á karlavinnustaði. Því breytingaskeið kvenna hefur oft áhrif á makann,“ segir Halldóra Skúladóttir, breytingaskeiðsráðgjafi og sérfræðingur í fræðslustjórnun og þjálfun starfsfólks.

Uppsagnir framundan: „Af hverju ég?“

Fólk sem lendir í uppsögnum fer í gegnum nokkur stig tilfinninga í kjölfarið. Allt frá afneitun yfir í reiði sem beinist að yfirmanninum og sorg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×